Hvað er örorkulífeyrir?
Sjóðfélagi sem missir heilsuna og getur ekki unnið fyrir sér og sínum vegna sjúkdóms eða slyss, og missir tekjur vegna þess, hefur rétt til örorkulífeyris að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Fjárhæð lífeyris er háð því sem greitt hefur verið til sjóðsins, hversu mikið starfsorka er skert og síðast en ekki síst hvort viðkomandi hefur öðlast rétt til framreiknings en þá reiknast örorkulífeyrir eins og sjóðfélagi hafi greitt af sömu launum til 65 ára aldurs. Eftir það tekur við hefðbundinn ævilangur lífeyrir.
Ferlið
Alla jafna hefur fólk veikindarétt hjá sínum launagreiðanda og nýtir þann rétt fyrst. Þá taka oftast við styrkir úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og flestir sem sækja um örorkulífeyri hjá sjóðnum hafa áður fengið endurhæfingarlífeyri frá TR gegn vottorði frá heimilislækni.
Þegar öll gögn eru komin, ferð þú í viðtal hjá trúnaðarlækni sjóðsins sem metur örorkuna. Þú getur valið um tvær læknastofur á höfuðborgarsvæðinu og bókað tíma þegar þér hentar.
Þegar trúnaðarlæknir hefur skilað sjóðnum mati sínu er úrskurðað um örorkulífeyri samkvæmt gögnum um tekjur og greiðslur til sjóðsins og annarra sjóða eftir atvikum.
Ferlið allt getur tekið um 8-12 vikur. Því er gott að sækja um tímanlega áður en sjúkrasjóður eða aðrar greiðslur falla niður. Þú munt fá tilkynningu frá okkur um niðurstöðuna sem er birt á Mínum síðum og getur haft samband ef eitthvað er óljóst.
Greiðslur
Greiðslur fara fram í lok hvers mánaðar og þú getur skoðað yfirlit yfir þær á Mínum síðum. Greiðslur á lífeyri fylgja vísitölu neysluverðs og eru því breytilegar frá mánuði til mánaðar.
Ef þú færð líka greiðslur frá TR er mikilvægt að þú uppfærir tekjuáætlun þar.
Langtímaörorka
Fyrstu þrjú árin miðast örorkumatið við getu til að gegna því starfi sem þú gegndir áður en starfsorka skertist. Eftir þann tíma miðast örorkumat við getu þína til almennra starfa.
Trúnaðarlæknir ákveður hvenær endurmat örorku fer fram. Nægjanlegt er að senda læknisvottorð vegna endurmats örorkulífeyris. Í fæstum tilfellum þarf að koma í viðtal vegna endurmats.
Tekjur á örorkulífeyri
Tvisvar á ári fer fram svokölluð tekjuskoðun til að kanna hvort tekjur þínar séu umfram það sem þær voru fyrir örorku. Samkvæmt lögum ber sjóðnum að tryggja að þú aukir ekki tekjur þínar með því að vera á örorkulífeyri. Þegar tekjur þínar verða hærri en tekjur síðustu þriggja ára fyrir örorkuna hefur það áhrif til lækkunar á örorkulífeyrisgreiðslum.
Barnalífeyrir vegna örorku foreldris
Þú færð greiddan barnalífeyri í sama hlutfalli og örorkulífeyri vegna barna sem eru fædd fyrir skerðingu starfsorku eða á næstu 12 mánuðum þar á eftir.