Um starfskjarastefnu:
a. Félag skal setja starfskjarastefnu sem gildir um kjör stjórnenda og stjórnarmanna. Þar skulu koma fram:
i. grundvallaratriði varðandi starfskjör stjórnenda og stjórnarmanna og stefnu félags varðandi samninga við stjórnendur og stjórnarmenn,
ii. hvort og þá við hvaða aðstæður og innan hvaða ramma heimilt sé að greiða stjórnendum og stjórnarmönnum greiðslur til viðbótar við grunnlaun.
b. Starfskjarastefna félagsins skal stuðla að því að hagsmunir stjórnenda séu raunverulega tengdir árangri félagsins til lengri tíma litið. Hún skal einnig koma í veg fyrir að starfskjör stjórnenda félagsins hvetji til óhóflegrar áhættutöku.
c. Starfskjarastefna skal styðja við viðskiptaáætlun félagsins, langtímahagsmuni þess og sjálfbærni, og í henni skal útskýrt hvernig það er gert. Stefnan skal vera skýr og skiljanleg með lýsingu á mismunandi þáttum fastra og breytilegra launakjara, þ.m.t. kaupauka og annarra kjara, í hvaða mynd sem er, sem veita má stjórnendum og innbyrðis hlutföll tilgreind. Ef heimilt er að greiða árangurstengdar greiðslur skal upplýsa um hversu hátt hlutfall þær geta orðið af föstum árslaunum.
Birting starfskjarastefnu
d. Gildandi starfskjarastefna skal vera aðgengileg á vef félagsins.
Gerð starfskjarastefnu og samþykki á hluthafafundi
e. Hafi starfskjaranefnd verið skipuð skal hún gera tillögu að starfskjarastefnu, að öðrum kosti leggur stjórn fram tillögu að stefnu.
f. Stefnan skal borin undir atkvæði hluthafa á hluthafafundi. Atkvæðagreiðslan skal vera bindandi. Breytingar á starfskjarastefnu eru háðar samþykki hluthafafundar.
g. Gögn sem liggja að baki starfskjarastefnunni skulu vera aðgengileg hluthöfum í það minnsta tveimur vikum fyrir aðalfund félags. Gögnin skulu vera þannig úr garði gerð að hluthafar eigi auðvelt með að móta sér skoðun á starfskjarastefnunni og áhrifum hennar.
h. Leggja skal starfskjarastefnu til samþykktar á hluthafafundi í það minnsta á fjögurra ára fresti.
i. Þegar starfskjarastefnan er endurskoðuð skal gerð grein fyrir mikilvægum breytingum og útskýra hvernig tekið sé tillit til atkvæðagreiðslna og álits hluthafa um stefnuna og skýrslur frá síðustu atkvæðagreiðslu um starfskjarastefnu á hluthafafundi.
j. Til að hluthafar geti að fullu áttað sig á efnislegri uppbyggingu starfskjara stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda skal á aðalfundi:
i. vekja sérstaka athygli á heildarkostnaði félagsins vegna starfskjarastefnunnar og tilgreina heimild til útgáfu kaupréttarsamninga sem geta þynnt hlutafjáreign hluthafa,
ii. gera grein fyrir áætluðum kostnaði vegna kaupréttaráætlana og skýra frá framkvæmd áður samþykktrar starfskjarastefnu.
Starfskjarastefna er grundvöllur greiðslna
k. Óheimilt er að greiða stjórnendum greiðslur umfram það sem mælt er fyrir um í starfskjarastefnu.
l. Ef um breytanlega launaliði er að ræða þurfa þeir að falla að langtímahagsmunum félagsins og forsendur fyrir þeim skulu vera skýrar. LV leggur áherslu á að breytanlegir launaliðir miðist við rekstrarárangur til lengri tíma og að eðlilegt tillit sé tekið til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta.
Upplýsingagjöf
m. Á aðalfundi skal stjórn gera grein fyrir kjörum stjórnenda og stjórnarmanna félags, þ.m.t. launum, áunnum eftirlaunagreiðslum, öðrum greiðslum og fríðindum, og breytingum á kjörum milli ára.
n. Félagið skal taka saman skýra og skiljanlega starfskjaraskýrslu með heildstæðu yfirliti yfir launakjör, þ.m.t. öll kjör í hvaða mynd sem er, sem eru veitt einstökum stjórnendum eða þeir eiga inni á undangengnu fjárhagsári, einnig nýráðnir og fyrrverandi stjórnendur, í samræmi við nánari ákvæði starfskjarastefnu félagsins. Í skýrslunni skal greina á milli fastra og breytilegra launagreiðslna. Birta skal þessar upplýsingar síðustu fimm ára til að auðvelda mat á langtímaárangri stjórnenda. Skýrslan skal birt tímanlega fyrir aðalfund félagsins.
Nánari útlistanir og reglur
o. Varðandi nánari sjónarmið um inntak starfskjarastefnu, framkvæmd hennar og upplýsingagjöf er vísað til viðauka við hluthafastefnu þessa, ákvæða hlutafélagalaga, leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja og 9. gr. a tilskipunar ESB nr. 2017/828 um breytingu á tilskipun ESB nr. 2007/36 að því er varðar hvatningu til þátttöku hluthafa til lengri tíma.