Örorku- og barnalífeyrir
Örorkulífeyri eiga þeir rétt á sem hafa verið metnir 50% óvinnufærir að lágmarki, hafa orðið fyrir tekjutapi og hafa greitt í lífeyrissjóð í tvö ár eða lengur. Einnig fylgir réttur til barnalífeyris og úttektar séreignar.
Umsókn
Sótt er um örorkulífeyri í þeim sjóði sem síðast var greitt til. Ferlið er eftirfarandi:
- Umsókn er lögð inn í gegnum Mínar síður ásamt ítarlegu læknisvottorði.
- SMS tilkynning er send til umsækjanda um tímabókun hjá trúnaðarlækni sem metur örorkuna. Hægt er að velja um tíma hjá Lækningu í Lágmúla eða í Orkuhúsinu í Kópavogi.
- Þegar örorkumat er tilbúið frá trúnaðarlækni tekur við úrvinnsla hjá starfsmönnum sjóðsins. Þegar úrskurður liggur fyrir er send tilkynning um að upplýsingar um greiðslur séu komnar undir „Skjöl“ á Mínum síðum.
Upphæðin
Upphæð örorkulífeyris byggir á áunnum réttindum og framreikningi ef það á við.
Framreikningur er mjög mikilvægur réttur þar sem bætt er við iðgjöldin eins og þú hafir haldið áfram að greiða í sjóðinn til 65 ára aldurs.
Þú átt rétt á framreikningi ef þú hefur:
- greitt iðgjald í lífeyrissjóð í 3 af 4 árum fyrir óvinnufærni
- greitt iðgjald í lífeyrissjóð í 6 af síðustu 12 mánuðum fyrir óvinnufærni
Nánari skilyrði og fjárhæðir eru í gr. 13.5 í samþykktum sjóðsins.
Ertu óvinnufær?
Þú átt rétt á örorkulífeyri ef starfsgeta þín skerðist vegna sjúkdóms eða slyss þannig að trúnaðarlæknir sjóðsins meti skerðinguna til a.m.k. 50% örorku.
Barnalífeyrir vegna örorku
Ef þú átt barn undir 20 ára og hefur greitt í lífeyrissjóð í 2 af 3 árum fyrir starfsorkutap eða átt rétt á framreikningi þá áttu rétt á barnalífeyri.
Réttur til barnalífeyris fylgir ávallt sömu hlutföllum og örorkulífeyrir og greiðist vegna barna fædd fyrir starfsorkutap eða á næstu 12 mánuðum þar á eftir.
Nánar um barnalífeyri vegna örorku má sjá í gr. 15 í samþykktum sjóðsins.
Heimild til útgreiðslu séreignar
Verðir þú að hætta störfum vegna örorku af völdum slyss eða veikinda áttu rétt á að fá inneign þína í séreignardeild greidda út á minnst 7 árum eða á þeim tíma sem vantar upp á 60 ára aldur.
Sé innstæða undir ákveðnum viðmiðum, kr. 1.616.426*, átt þú rétt á að fá innistæðuna greidda út í eingreiðslu eða á skemmra tímabil en fyrrgreind 7 ár.
* 1.janúar 2023. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs.
Algengar spurningar um örorku- og barnalífeyri
Hvenær á ég rétt á örorkulífeyri?
Þú þarft að vera yngri en 67 ára og hafa greitt ákveðin lágmarksiðgjöld í lífeyrissjóð í samtals 24 mánuði fyrir slys eða sjúkdóm sem veldur starfsorkutapinu.
Skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt er að þú hafir tapað að minnsta kosti 50% starfsorku til þess starfs sem þú hafðir, að örorkan hafi varað í að lágmarki 6 mánuði og þú hafir tapað tekjum vegna þessa.
Tapa ég rétti á ævilöngum lífeyri ef ég fer á örorkulífeyri?
Nei, ef þú ert á örorkulífeyri til 67 ára aldurs tekur við ævilangur lífeyrir sem veitir sömu réttindi áfram og til æviloka.
Má ég vinna þó ég fái örorkulífeyri?
Þú mátt afla þér allra þeirra tekna sem þú getur og vilt. Hins vegar er örorkulífeyri aðeins ætlað að tryggja þér þær tekjur sem þú hafðir áður en þú misstir starfsorkuna. Þess vegna eru launagreiðslur og greiðslur frá TR dregnar frá örorkulífeyri. Þú mátt ekki hafa meiri tekjur á örorkulífeyri en þegar þú varst í vinnu.
Greiði ég af örorkulífeyri í lífeyrissjóð?
Nei, iðgjöld í lífeyrissjóð eru ekki greidd af örorkulífeyri.
Get ég greitt félagsgjald af örorkugreiðslum til stéttarfélags?
Samkvæmt lögum VR er öryrkjum heimilt að greiða 0,7% félagsgjald af örorkulífeyri sem renni í sjóði félagsins til að tryggja réttindi þeirra úr sjóðunum.
Skilyrði sem öryrki þarf að uppfylla til að öðlast þennan rétt er að hann hafi verið félagsmaður VR óslitið í fimm ár áður en til örorku kom og að árlegar greiðslur félagsgjalds af örorkulífeyri nái lágmarksfélagsgjaldi VR hverju sinni.
Á hverju ári þurfa þeir sem búa erlendis og fá greiddan örorkulífeyri frá sjóðnum að senda erlent skattframtal til sjóðsins á live@live.is fyrir 15. október ár hvert.
Sjóðfélagar sem búa erlendis þurfa að koma upplýsingum um netfang sitt til sjóðsins eða skrá það inn á Mínar síður.
Hvað tekur ferlið langan tíma?
Almennt má búast við að ferlið vegna umsóknar um örorku taki 8-12 vikur.