Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Maka- og barnalífeyrir

Borga ég skatt af lífeyrisgreiðslum?

Já, lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar með sama hætti og almennar launatekjur. Þú þarft því að gera ráð fyrir að greiða skatt af þeim tekjum sem þú færð frá sjóðnum eftir því skattþrepi sem þú ert í.

Á vef Skattsins er reiknivél sem áætlar skattgreiðslur af tekjum sem gott er að skoða. 

Sjóðurinn sér um að skila staðgreiðslu af lífeyrisgreiðslum til skattayfirvalda. Skattkort eru rafræn og nauðsynlegt er að láta vita hversu hátt hlutfall af skattkorti þú vilt nýta hjá sjóðnum.

Persónuafsláttur

Skattkort lækkar skattinn því það veitir rétt til persónuafsláttar á staðgreiðsluári.  Eigi lífeyrisþegi ónýttan persónuafslátt er mikilvægt að láta sjóðinn vita.

Lífeyrisþegar geta nýtt allt að 100% af ónýttu skattkorti maka til skattalækkunar.

Við fráfall maka geta lífeyrisþegar nýtt skattkort makans í 9 mánuði frá og með andlátsmánuði.

Erfist ævilangi lífeyririnn minn?

Réttindi þín sem slík erfast ekki. Hins vegar er rík fjárhagsleg vernd fyrir fjölskylduna ef þú fellur frá. Greiddur er makalífeyrir í að lágmarki 5 ár en hann er oft greiddur lengur eða þar til yngsta barn nær 23 ára aldri. Þá er barnalífeyrir greiddur fyrir hvert barn fram að 20 ára aldri þess. 

Þannig er verndin mest fyrir þá sem eiga ung börn og mestu skiptir fyrir fjölskylduna að hafa fjárhagslegt öryggi. 

 

Hvernig er skattlagning lífeyris ef ég bý erlendis?

Ef lífeyrisþegi býr í landi sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við og samningurinn kveður á um að lífeyristekjur eigi að skattleggja í búseturíki, þarf hann að sækja um undanþágu frá greiðslu skatta árlega á heimasíðu Skattsins.

Lífeyrissjóðnum ber að halda eftir staðgreiðslu nema samþykkt undanþága liggi fyrir.

Norðurlönd

Samkvæmt tvísköttunarsamningi Norðurlandanna skal lífeyrir skattlagður í því landi sem hann er greiddur. Allur lífeyrir sem aðilar búsettir á Norðurlöndunum fá héðan er samkvæmt því skattlagður á Íslandi og aldrei gefnar út undanþágur.

Lífeyrissjóðnum ber samkvæmt því að halda eftir staðgreiðslu en persónuafsláttur miðast við greiðslutíma. Ef um eingreiðslu er að ræða fær viðkomandi persónuafslátt miðað við greiðslumánuðinn (engin uppsöfnun).

Hver er upphæð barnalífeyris?

Mánaðarlegur barnalífeyrir með hverju barni er [childPension]. 

Hver telst vera maki?

Maki er sá sem hefur verið í hjúskap eða sambúð með sjóðfélaga í tvö ár, að minnsta kosti. Viðmiðið er að sambúðarfólk hafi haft sameiginleg fjármál í tvö ár. Hjón mega ekki vera skilin að borði og sæng því þá fellur niður réttur til makalífeyris.

Hvaða skilyrði eru fyrir rétti til makalífeyris og hversu hár er hann?

Makalífeyrir er alltaf að lágmarki 60% af áunnum réttindum sjóðfélagans við 67 ára aldur. 

Mun meiri verðmæti felast alla jafna í rétti til framreiknings á makalífeyri. Það þýðir að til útgreiðslu eru þau réttindi sem sjóðfélagi hafði þegar áunnið sér við andlátið en við bætast réttindi eins og sjóðfélaginn hefði greitt til sjóðsins af sömu launum til 65 ára aldurs. Makinn fær 60% af þeim rétti. 

Til að fá bæði áunninn og framreiknaðan rétt til makalífeyris þarf sjóðfélagi: 

  • Að hafa greitt í sjóðinn í a.m.k. 3 af síðustu 4 árum fyrir andlát.
  • Að hafa greitt iðgjald í sjóðinn að lágmarki 178.435* krónur hvert þessara þriggja ára.
  • Að hafa greitt í sjóðinn í a.m.k. 6 mánuði síðasta árið fyrir andlát.

* 178.435 kr. er grunnupphæð og skal verðbætt í byrjun hvers árs skv. vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 513 í janúar 2022.  

Hversu lengi er makalífeyrir greiddur?

Í stuttu máli er makalífeyrir greiddur í að lágmarki í fimm ár en í sumum tilfellum greiðist hann lengur.

  • Ef þið eigið börn undir 23 ára aldri: Maki þinn fær makalífeyri þangað til yngsta barnið hefur náð 23 ára aldri.

  • Ef maki þinn er öryrki er makalífeyrir greiddur á meðan makinn er öryrki en að hámarki til 67 ára aldurs. 

  • Nánari upplýsingar um eldri greinar má finna í samþykktum.

Hefur skipting réttinda við fyrri maka áhrif?

Skipting réttinda milli hjóna hefur ekki áhrif á makalífeyri, hún hefur eingöngu áhrif á ævilangan lífeyri.

Hver eru skilyrðin fyrir greiðslu barnalífeyris?

Skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris er að foreldri hafi greitt í sjóðinn í tvö ár á síðustu þremur árum eða í að minnsta kosti sex mánuði síðasta árið fyrir fráfall.

Hvaða gögnum þarf að skila með umsókn um makalífeyri?

Þú sækir um makalífeyri á mínum síðum. Ef hjón eru gift þá þarf ekki nein gögn því sjóðurinn hefur aðgang að þjóðskrá. Ef um sambúð er að ræða  þarf að koma staðfesting á að sambúð hafi varað í tvö ár.

Hvað gerist ef ég gifti mig eða hef sambúð á meðan ég fær greiddan makalífeyri?

Ef makinn giftist aftur eða stofnar til sambúðar innan þess tíma sem hann/hún á rétt á makalífeyri fellur sá réttur niður.

Get ég notað skattkort maka?

Þú getur notað skattkort maka í níu mánuði, að meðtöldum mánuðinum þegar maki lést. 

Er greiddur skattur af makalífeyri?

Já, greiddur er tekjuskattur af makalífeyri eins og öðrum tekjum.

Hversu lengi er barnalífeyrir greiddur og hversu hár er hann?

Barnalífeyrir er [childPension] kr. á mánuði fyrir hvert barn og er greiddur til 20 ára aldurs þess. Barnalífeyrir er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs.

Hver telst sem barn sjóðfélaga?

Barnalífeyrir er greiddur með börnum sjóðfélaga ásamt fósturbörnum og stjúpbörnum sem voru á framfærslu sjóðfélaga.

Hver fær greiddan barnalífeyri?

Barnalífeyrir vegna andláts foreldris er greiddur inn á reikning barnsins.

Hvað ef ég bý erlendis?

Á hverju ári þurfa þeir sem búa erlendis og fá greiddan lífeyri frá sjóðnum að senda lífsvottorð. Viðeigandi yfirvöld á hverjum stað; þjóðskrá, bæjarskrifstofur, skattstofa eða aðrir opinberir aðilar gefa út slíkt vottorð. Það þarf að berast sjóðnum fyrir 15. maí ár hvert. 

Sjóðfélagar sem búa erlendis þurfa að koma upplýsingum um netfang sitt til sjóðsins eða skrá það inn á Mínar síður.

Eru allir sjóðir með sömu réttindi til maka- og barnalífeyris?

Nei, mikill munur getur verið á því hver réttindi sjóðfélaga eru til áfallaverndar. Ákveðin lögbundin lágmörk eru skilgreind í lögum en samtryggingarsjóðir bjóða almennt talsvert betri vernd. LV er þar fremstur í flokki og veitir mun betri áfallavernd en lög kveða á um. Almennt eru sjóðir sem leggja áherslu á séreign umfram samtryggingu með rýrari réttindi til áfallaverndar í staðinn.

Veitir sjóðurinn útfararstyrki?

Nei, en það gera sum stéttarfélög. Best er að hafa samband við síðasta stéttarfélag sem maki greiddi í. Ef maki er kominn á lífeyri getur samt verið réttur á útfararstyrk og þá er það síðasta stéttarfélag sem greiðir hann.   

Sjá upplýsingar um dánarbætur hjá VR.