Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Tilgreind séreign

Borga ég skatt af lífeyrisgreiðslum?

Já, lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar með sama hætti og almennar launatekjur. Þú þarft því að gera ráð fyrir að greiða skatt af þeim tekjum sem þú færð frá sjóðnum eftir því skattþrepi sem þú ert í.

Á vef Skattsins er reiknivél sem áætlar skattgreiðslur af tekjum sem gott er að skoða. 

Sjóðurinn sér um að skila staðgreiðslu af lífeyrisgreiðslum til skattayfirvalda. Skattkort eru rafræn og nauðsynlegt er að láta vita hversu hátt hlutfall af skattkorti þú vilt nýta hjá sjóðnum.

Persónuafsláttur

Skattkort lækkar skattinn því það veitir rétt til persónuafsláttar á staðgreiðsluári.  Eigi lífeyrisþegi ónýttan persónuafslátt er mikilvægt að láta sjóðinn vita.

Lífeyrisþegar geta nýtt allt að 100% af ónýttu skattkorti maka til skattalækkunar.

Við fráfall maka geta lífeyrisþegar nýtt skattkort makans í 9 mánuði frá og með andlátsmánuði.

Erfist ævilangi lífeyririnn minn?

Réttindi þín sem slík erfast ekki. Hins vegar er rík fjárhagsleg vernd fyrir fjölskylduna ef þú fellur frá. Greiddur er makalífeyrir í að lágmarki 5 ár en hann er oft greiddur lengur eða þar til yngsta barn nær 23 ára aldri. Þá er barnalífeyrir greiddur fyrir hvert barn fram að 20 ára aldri þess. 

Þannig er verndin mest fyrir þá sem eiga ung börn og mestu skiptir fyrir fjölskylduna að hafa fjárhagslegt öryggi. 

 

Hvernig er skattlagning lífeyris ef ég bý erlendis?

Ef lífeyrisþegi býr í landi sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við og samningurinn kveður á um að lífeyristekjur eigi að skattleggja í búseturíki, þarf hann að sækja um undanþágu frá greiðslu skatta árlega á heimasíðu Skattsins.

Lífeyrissjóðnum ber að halda eftir staðgreiðslu nema samþykkt undanþága liggi fyrir.

Norðurlönd

Samkvæmt tvísköttunarsamningi Norðurlandanna skal lífeyrir skattlagður í því landi sem hann er greiddur. Allur lífeyrir sem aðilar búsettir á Norðurlöndunum fá héðan er samkvæmt því skattlagður á Íslandi og aldrei gefnar út undanþágur.

Lífeyrissjóðnum ber samkvæmt því að halda eftir staðgreiðslu en persónuafsláttur miðast við greiðslutíma. Ef um eingreiðslu er að ræða fær viðkomandi persónuafslátt miðað við greiðslumánuðinn (engin uppsöfnun).

Hvenær má taka út tilgreinda séreign?

Tilgreind séreign er laus til útborgunar frá 62 ára aldri, en þá er greiðslunum dreift þar til þú nærð 67 ára aldri. Sé innstæða undir ákveðnum viðmiðum, kr. 1.745.821*, átt þú rétt á að óska eftir því að innstæðan verði greidd út í eingreiðslu.

* 1.janúar 2024. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs.

Hver er munurinn á séreign og tilgreindri séreign?

Séreign er valfrjáls sparnaður, viðbót við lögbundin lífeyrissparnað. Ef þú sparar 2-4% af þínum launum þá greiðir launagreiðandi 2% mótframlag. Þú getur hafið úttekt við 60 ára aldur og fengið allt greitt í einu ef þú vilt. 

Tilgreind séreign er hluti af lögbundnum lífeyrissparnaði.  Þú hefur val um að ráðstafa næstum fjórðungi af 15,5% lögbundna iðgjaldinu þínu í tilgreinda séreign eða 3,5% af 15,5%. Hægt er að taka út tilgreinda séreign frá 62 ára með ákveðnum skilyrðum.

Erfist tilgreind séreign?

Já, tilgreind séreign erfist og skiptist á milli maka og barna þinna samkvæmt reglum hjúskapar- og erfðalaga. Samkvæmt hjúskaparlögumer helmingur séreignar skilgreind sem hjúskapareign og rennur að fullu til maka, hinn helmingurinn skiptist samkvæmt reglum erfðalaga á milli maka og barna. Þetta þýðir að maki fær 2/3 og börn 1/3.

  • Ef þú lætur ekki eftir þig börn þá erfir maki þinn alla séreignina. Ef þú hefur ekki verið í hjónabandi við andlát þá erfa börn alla séreignina. 
  • Ef þú lætur ekki eftir þig maka eða börn rennur inneign til dánarbús.

Hvorki er reiknaður erfðafjárskattur né fjármagnstekjuskattur af erfðaséreign en greiddur er tekjuskattur við útgreiðslu.

Erfingjar geta afsalað sér sínum hluta áður en útgreiðslur hefjast en þá skiptist sá hluti eftir reglum erfðalaga.

Inneignin er laus til útgreiðslu eftir að skipting hefur verið framkvæmd en erfingjum stendur einnig til boða að ávaxta inneignina áfram hjá sjóðnum.

Ef ég veikist eða lendi í slysi?

Verðir þú að hætta störfum vegna örorku af völdum slyss eða veikinda áttu rétt á að fá inneign þína í séreignar greidda út á minnst sjö árum eða á þeim tíma sem vantar upp á 60 ára aldur. Sé innstæða undir ákveðnum viðmiðum, kr. 1.616.426*, átt þú rétt á að óska eftir því að innstæðan verði greidd út í eingreiðslu eða á skemmra tímabil en fyrrgreind sjö ár. 

 

* 1.janúar 2023. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs.

Geta allir greitt í tilgreinda séreign?

Allir þeir sem greiða 15,5% lágmarksiðgjald hafa val um að ráðstafa 3,5% í tilgreinda séreign.

Greiði ég skatt af greiðslum úr tilgreindri séreign?

Greiðslur úr lífeyrissjóðum og greiðslur séreignar eru skattlagðar eins og aðrar launatekjur en þú getur nýtt persónuafslátt þinn til þess að lækka skattana. 

Við sjáum um að skila staðgreiðslu af lífeyrisgreiðslum til skattayfirvalda. Skattkort eru rafræn og nauðsynlegt er að láta vita hversu hátt hlutfall af skattkorti þú vilt nýta hjá sjóðnum.

Persónuafsláttur

  • Skattkort lækkar skattinn því það veitir rétt til persónuafsláttar á staðgreiðsluári.  Eigi lífeyrisþegi ónýttan persónuafslátt er mikilvægt að láta sjóðninn vita.
  • Lífeyrisþegar geta nýtt allt að 100% af ónýttu skattkorti maka til skattalækkunar.
  • Við fráfall maka geta lífeyrisþegar nýtt skattkort makans í 9 mánuði frá og með andlátsmánuði.

Skerðir tilgreind séreign lífeyri frá TR?

Já, tilgreind séreign og önnur séreign sem tilheyrir 15,5% lágmarksiðgjaldinu skerðir greiðslur frá TR frá og með 1. janúar 2023 og er sömuleiðis ekki undanþegin þátttöku í dvalarkostnaði á stofnun fyrir aldraða og fleira.

Ein undantekning er þó á því; Þeir sem þegar hafa hafið töku lífeyris hjá TR fyrir 1. janúar 2023 munu ekki verða fyrir skerðingu. 

Hefur tilgreind séreign áhrif á örorku- og makalífeyri?

Já, með því að ráðstafa hluta af iðgjaldi í tilgreinda séreign þá lækkar á móti sú áfallavernd sem fæst með fullu iðgjaldi í samtryggingu. Áfallaverndin er þó áfram til staðar af því iðgjaldi sem greitt er til samtryggingar.

Get ég nýtt tilgreinda séreign skattfrjálst til kaupa á fyrstu íbúð?

Já, með breytingum á lögum um lífeyrissjóði í janúar 2023 er það hægt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sjá nánar á vef Skattsins.

  • Ef að þú ert með séreignarsparnað þá þarft þú fyrst að nýta hann áður en þú nýtir tilgreindu séreignina. 
  • Tilgreind séreign er greidd í lok hvers almanaksár, eða þegar liggur fyrir að hvaða marki hámarksfjárhæð hefur verið nýtt með greiðslu séreignarsparnaðar.
  • Ráðstöfun tilgreindar séreignar inn á lán er að jafnaði í formi eingreiðslu
  • Nýta má iðgjöld vegna tilgreindrar séreignar sem greidd eru frá og með 1.janúar 2023

Ég á íbúð get ég nýtt tilgreinda séreign inn á lán?

Nei, ef þú átt íbúð þá er ekki í boði að nýta tilgreinda séreign. Ef þú ert með séreignarsparnað þá getur þú nýtt hann til að greiða inn á lán.

Hefur tilgreind séreign áhrif á greiðslur hjá TR?

Já, tilgreind séreign hefur áhrif á greiðslur hjá TR. Séreign sem er hluti lögbundins framlags í lífeyrissjóð eins og tilgreind séreign lækka greiðslur lífeyris frá TR.

Hvernig geri ég lífeyrisáætlun á mínum síðum?

Skráðu þig inn og smelltu á „Réttindi“ í valmyndinni, veldu „Lífeyrisáætlun“. Þar getur þú skráð inn þau laun sem þú vilt miða við, ráðstöfun í séreign og áætlaða ávöxtun. Þannig geturðu séð hverjar áætlaðar greiðslur verða þegar þú vilt taka út. 

Lífeyrisáætlunin birtir sjálfkrafa þann rétt og séreign sem þú átt hjá sjóðnum auk réttinda til ævilangs lífeyris hjá öðrum sjóðum. Uppsöfnuð eign í séreignarsparnaði hjá öðrum kemur hins vegar ekki fram nema þú fyllir inn í þann reit.