Hún er alltaf kölluð Ragga Gogga en heitir fullu nafni Ragnheiður Rut Georgsdóttir. Ragga er einstaklega lífleg 47 ára Eyjakona sem málar draumkenndar landslagsmyndir sem margir þekkja. Eftir um 23 ára starf hjá Bakarameistaranum varð hún óvinnufær og einbeitir sér nú að endurhæfingu af fullum krafti til að ná heilsu á ný.
22. jan. 2025
Hvernig gerðist það að þú varðst óvinnufær?
Í desember 2022 þá datt ég mjög harkalega þegar ég var nýflutt á Öldugötuna. Árin 2022-2023 voru satt að segja einstaklega erfið. Ég missti marga af mínu fólki, fjölskyldu og vini og fór í 6 jarðarfarir á 9 mánuðum.
Ég missti sem sagt mátt í báðum höndum og get ekki staðið lengi. Árið 2016 fór ég í bráðaaðgerð á baki vegna slæms bakbrots sem varð þegar ég datt af Hánni í Eyjum í kringum sjö ára aldur. Það hafði þær afleiðingar að það þurfti að spengja hrygginn 2017.
Hrafn Jökulsson var einn þeirra sem Ragga þurfti að fylgja síðustu sporin á erfiðu tímabili 2022-2023
Ég hef verið að vinna frá því ég var 12 ára, hef alltaf verið stálhraust og dugleg að harka af mér og mæta í vinnu en ég kvaldist mikið eftir þetta.
Hvað tók við eftir að þú varðst óvinnufær?
Ég vann í Bakarameistaranum í 23 ár og þau eru öll eins og fjölskylda mín þar, Sissi og Begga og allt þeirra fólk. Ég kenndi Sissa að mála fyrir um 8 árum og við höfum mikil málað saman.
Ég vissi að ég ætti góðan veikindarétt og fékk greiðslur úr sjúkrasjóði í 9 mánuði. En svo kláraðist það og ég vissi bara ekki hvað tæki við. Ég var orðin alveg tekjulaus þegar Begga, dóttir Sissa og framkvæmdastjóri Bakarameistarans sagði við mig; þetta gengur ekki lengur. Þú þarft að tala við lífeyrissjóðinn.
Ég hringdi og hitti á hana Sigrúnu sem var svo yndisleg og róaði mig strax alveg niður og fór yfir málið með mér. Hún sagði mér bara að koma og þau myndu bara hjálpa mér svo þetta gengi allt hratt og vel. Hún sagði að það gæti bara alls ekki gengið að ég væri orðin tekjulaus!
Ég veit ekki hvað ég hefði gert ef ég hefði ekki fengið svona góð viðbrögð. Að missa heilsuna og vera kippt úr vinnu er bara heilmikið áfall.
Begga kom með mér og ég var með allt sem þurfti með mér. Þetta var svo fljótt að gerast og ég þurfti ekkert að bíða. Það var ekkert verið að snúa mér útum allt.
Vissirðu af þessum rétti þínum til örorkulífeyris?
Nei, hafði ekki hugmynd. Ég hafði aldrei spáð neitt í lífeyrismál áður. Ég er eiginlega frekar kærulaus með svona og skoða varla launaseðlana mína.
En þessi frábæri réttur er að bjarga mér núna. Ég hefði verið miklu rólegri ef ég hefði vitað það fyrr.
Við eigum bara daginn í dag og enginn veit sína ævidaga. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir fólk að vita af því hvaða réttindi það á hjá lífeyrissjóðnum.
Systurnar Helga Björk og Ragga
Hver er staðan á þér í dag?
Ég er á fullu í sjúkraþjálfun og ég vona að ég geti alla vega farið að mála aftur fljótlega. Hef ekkert getað staðið við trönur í tvö ár. Heilsan er svo mikilvæg. Maður veit það ekki fyrr en maður lendir á vegg.
Hvernig var upplifun þín af umsóknarferlinu?
Ég upplifði það þannig að lífeyrissjóðurinn væri að vinna með mér og fyrir mig. Þau héldu bara hausnum á mér uppi, þetta símtal var svo mikill léttir. Bara eitt símtal.
Ég vil að fólk kanni rétt sinn, taki upp símann og fái góða manneskju á línuna sem gefur manni fullt af góðum ráðum og skoðar málið með manni.
Er eitthvað sem þú hefur lært í þessu ferli eða eitthvað sem kom á óvart sem þú vilt deila með öðrum?
Það kom mér á óvart hvað ég á mikil réttindi, hvað ég er nálægt laununum mínum á örorkulífeyri. Og það kom mér líka á óvart að það var ekki verið að snúa mér hingað og þangað. Þetta var bara allt hreint og beint.
Hægt er að fylgjast með málverkasíðu Röggu á Facebook: Ragga Gogga - Málverk