Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

"Fyrst og fremst, vertu með séreignarsparnað"

Breki Valsson er 25 ára og var yngsti fastráðni starfsmaðurinn hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna þar til nýlega. Breki hóf störf um vorið 2022 í iðgjaldaskráningu og innheimtu í kjölfar útskriftar úr viðskiptafræði frá HR. Breki sinnir mörgum stórum verkefnum þessa dagana og er meðal fyrirliða í innleiðingu Salesforce viðskiptastjórnunarkerfisins innan sjóðsins en hann er líka nýbakaður faðir.

Breki Laufey Breki Laufey

Hver eru þín helstu verkefni í vinnunni Breki?

Helstu verkefnin okkar í deildinni eru að stemma af greiðslur og skilagreinar þannig að peningarnir sem greitt er inn fyrir sjóðfélaga komist sem allra fyrst til eignastýringar til ávöxtunar. Skilagreinar eru sem sagt sundurliðun iðgjalda fyrir launþega sem eiga að fylgja greiðslum frá fyrirtækjum. Í þessu felast oft mikil samskipti við launagreiðendur. Það þarf að hafa samband ef eitthvað vantar eða er óvenjulegt, eitthvað þarf að bakfæra eða breyta.

Við erum 6 starfsmenn í deildinni sem skiptist nokkurn veginn í tvennt. Þar sem helmingurinn er aðallega í skráningu iðgjalda og hinn helmingurinn í innheimtu iðgjalda.

Miklir hagsmunir fyrir sjóðfélaga að allt sé rétt

Það eru hátt í 11 þúsund mismunandi kennitölur sem greiða til sjóðsins einu sinni eða oftar á ári. Í hverjum mánuði eru um 4 milljarðar greiddir inn fyrir launþega. 

Það er mikilvægt fyrir hagsmuni sjóðfélaga að passa að allt sé rétt og bókað rétt.

Salesforce er mesta byltingin

Síðastliðið ár hefur mikið breyst í afgreiðslu mála hjá okkur með því að byrja að nota Salesforce viðskiptastjórnunarkerfið.

Við höfum miklu betri yfirsýn, vinnum hraðar og betur og skilum mun meiri afköstum. Ég fékk það hlutverk að stýra innleiðingunni í okkar deild sem hefur verið mjög skemmtilegt.

Við eigum mun auðveldara með að finna og tengja mál saman sem sparar talsvert af handavinnu sem var áður.

Breki Golf
Breki Golf

Breki er meðlimur í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar enda býr hann í grennd við 13. holu á Leirdalnum

Nýji fyrirtækjavefurinn verður líka bylting en hann verður settur í loftið í september.

Það er mjög margt sem við munum geta stýrt betur í deildinni, frávik og undanþágur sem tölvudeildin hefur þurft að gera áður en við getum séð um núna. Launagreiðendur og bókarar fá miklu betri leiðbeiningar þegar þeir senda inn skilagreinar, til dæmis fá að vita hvort eitthvað fer á villu og hverju þurfi að breyta.

Þetta skilar sér líka inn í launakerfin og fólk getur greint villuna í fyrirtækjavefnum, fengið skuldastöðu og greiðsluyfirlit og þess háttar.  Við munum líka auka þjónustuna með því að senda sjálfvirka áminningarpósta o.fl.

Þannig við erum að sjá miklar framfarir í svo mörgu.

Innheimtuferlið er í mikilli þróun sömuleiðis. Við erum að vinna að meiri sjálfvirkni og nýta okkur meira rafrænar lausnir á island.is til fyrirtækjaeigenda ásamt ýmsu öðru. Við erum að sjá að handavinnan er að minnka töluvert á mjög stuttum tíma.

Hvað finnst þér áhugaverðast við lífeyrismálin?

Mér dettur fyrst í hug hvernig þú safnar réttindum. Margir gera sér ekki grein fyrir að réttindin eru aldurstengd og þannig það sem er borgað á yngri árum gefur töluvert verðmætari réttindi. Þess vegna finnst mér að fólk eigi að borga eins mikið og það getur í sameign á sínum yngri árum.

Það er dapurt að sjá t.d. sjálfstæða atvinnurekendur vera borga sér lítið í lífeyrissjóð til 40 ára en fara svo í það að setja inn hærri upphæðir, en hafa þá, því miður, misst af verðmætustu árunum til að vinna sér inn fyrir hæstu eftirlaunum og áfallaverndinni.

Mér finnst sorglegt að sjá ungt fólk vera að fara í tilgreinda séreign og taka þannig 3,5% af iðgjaldinu sínu í séreign þegar þú færð langhæstu réttindin fyrir peninginn sem þú borgar inn í samtrygginguna.

Fólk áttar sig alls ekki á hvað þetta eru gríðarlega verðmæt réttindi.

Svo er það áfallaverndin. Fólk áttar sig alls ekki á því hvað þetta eru gríðarlega mikilvæg réttindi. Þegar þú ert búinn að greiða í meira en 3 ár í lífeyrissjóð og lendir í slysi eða veikindum þá færðu greiðslur eins og þú hafir starfað og greitt í sjóðinn til 65 ára.

Segjum til dæmis að þú lendir í slysi 32 ára og átt ekkert endilega mikil réttindi en færð samt útborgað eins og þú hafir unnið til 65 ára. Það er gríðarlegur munur og skiptir fólki mjög miklu máli ef eitthvað kemur fyrir. Sérstaklega ungt fólk.

Almennt veit fólk ekki að það eru mismunandi réttindi eftir sjóðum enda er mjög erfitt fyrir fólk að finna upplýsingar um hvað þú færð ef eitthvað kemur uppá. Ég myndi því vilja sjá miklu betra aðgengi upplýsinga um réttindi fyrir almenning. 

Hvað kannt þú best að meta á vinnustaðnum?

Mér finnst sjóðurinn algjörlega frábær vinnustaður. Það eru kannski ekki svo margir á mínum aldri en rosalega góð samheldni í hópnum og maður getur talað við alla. Það er afslappað umhverfi og gott andrúmsloft.

Mér líður mjög vel hérna, það eru góð samskipti og vel hugsað um fólk.

Breki Laufey Birnir
Breki Laufey Birnir

Falleg fjölskylda; Breki, Laufey og Birnir sonur þeirra

Svo er ég líka nýorðinn pabbi og ánægður með hvað þetta er fjölskylduvænn vinnustaður. Ég get nýtt mér sveigjanleika til að vinna heima og get skotist til læknis með barnið eins og þarf. Maður upplifir sig ekki vera fastan eða mjög bundinn. Það er því góður sveigjanleiki og sanngirni gagnvart starfsfólki.

Er eitthvað sem þú vilt deila með sjóðfélögum? Áttu einhver góð ráð?

Fyrst og fremst, vertu með séreignarsparnað og gerðu samanburð á ávöxtun og kostnaði. Að fá 2% aukalega á sparnaðinn er meira en fólk heldur. Þegar þessi 2% er lögð fyrir í langan tíma verða þetta góðar summur.

Svo mætti fólk skoða betur munur á kostnaði á milli aðila, allt frá því að vera nánast enginn kostnaður upp í að taka umtalsverðan hlut af sparnaðinum þínum. 

Það er almennt góð ávöxtun á séreignarsparnaði og getur skipt fólk miklu máli að fá góða langtímaávöxtun án þess að borga þóknanir eða samningskostnað.

Breki Laufey
Breki Laufey

Breki og Laufey á góðri stundu