Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Maður þarf að vera virkilega á tánum

Harpa Rut Sigurjónsdóttir er sjóðstjóri í eignastýringu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og leiðir sérhæfðar fjárfestingar sjóðsins. Hún er hagfræðingur og með MSc í fjármálahagfræði, sem hefur starfað hjá sjóðnum í um 2 ár en vann áður hjá Arion banka og Stefni.

Image00007 Image00007

Hver eru þín helstu verkefni í vinnunni Harpa?

Ég er ábyrg fyrir sérhæfðum fjárfestingum sjóðsins. Starfið felst bæði í stefnumótun sérhæfðra fjárfestinga sjóðsins m.t.t. samsetningar á milli ólíkra eigna þar innan ásamt greiningu fjárfestingatækifæra. Fjárfestingatækifæri eru t.d. í innlendum og erlendum sérhæfðum sjóðum svo sem framtaks, innviða og fasteignasjóðum sem og beinu eignarhaldi í óskráðum hlutabréfum.

Í starfinu felast einnig mikil samskipti við eignastýrendur innanlands og erlendis ásamt mikilli teymisvinnu innan eignastýringar. Þá hef ég einnig aðkomu að stærri stefnumarkandi málum s.s. mótun fjárfestingarstefnu.

Mengi óskráðra fjárfestinga, hvort sem er í sjóðaformi eða beinar fjárfestingar er stórt og því næg verkefni til staðar.

Starfið er fjölbreytt en í meginatriðum er ég að rýna og greina ítarlega fjárfestingartækifæri sem ekki falla undir skráða fjármálamarkaði bæði hér innanlands sem og erlendis. Samhliða er mikilvægt að vera sífellt í rýni á greiningum, hitta aðra aðila á þessum anga fjármálakerfisins og greina ólíka sýn aðila á markaðinn.

Þessu fylgja svo allskonar hliðarverkefni í ljósi þess að um óskráðar fjárfestingar ræðir. Oft eru þessar fjárfestingar settar upp sem áskriftarfyrirkomulag og því mikilvægt að þegar kallað er eftir greiðslum skili þær sér til stýrenda á réttum tíma.

Þá er einnig mikilvægt að fylgjast með nýjum og uppfærðum verðmötum undirliggjandi eigna og vera með tilfinningu fyrir því hvað er að gerast í undirliggjandi fjárfestingum sjóðsins. Svo leggjum við áherslu á að meta reglulega hvernig stýrendur sjóða í þessum afurðum standa sig í samanburði við samkeppnisaðila sína annars vegar og hins vegar meta hvort við séum að fá ávöxtun sem er umfram skráðar eignir.   

Við beinar fjárfestingar í óskráðum hlutbréfum er gífurlega mikilvægt að greina og rýna viðskiptaáætlanir og forsendur hennar ítarlega bæði við upphafleg kaup og eins ef um hlutafjáraukningu ræðir í framhaldi. 

Image00013 Image00013
Image00013 Image00013

Hera, Katla og Bríet með mömmu og pabba

Hvernig kom það til að þú fórst úr banka í lífeyrissjóð? 

Eftir að hafa unnið í banka og í sjóðastýringu í næstum 12 ár fannst mér áhugavert að skipta yfir á þessa hlið  fjármálakerfisins. Starfið er mjög fjölbreytt og lifandi þar sem ég hitti mikið af fólki sem er með ólíka sýn á framtíðina og tækifærin sem bjóðast, bæði hérna heima og um allan heim. 

Image00008 (2)
Image00008 (2)

Þegar færi gefst þá fer Harpa í veiði.

Maður þarf að vera virkilega á tánum og með skýra sýn svo maður sé með á nótunum í öllum þessum ólíku eignaflokkum.

Bæði í bankanum og eignastýringunni þar sem ég vann áður þá var ég mikið til í sama bransa varðandi óskráða markaðinn en þá helst sem lánveitandi en nú helst sem fjárfestir í hlutafé undirliggjandi fyrirtækja.

Hvað finnst þér áhugaverðast við lífeyrismálin? Var eitthvað sem kom þér á óvart sem þú vissir ekki áður?

Já, það voru nokkur atriði sem komu ágætlega á óvart. Í fyrsta lagi þá var það öll þessi réttindi eða tryggingar sem fylgja í samtryggingunni. Þannig að ef t.d. ég gæti ekki unnið vegna sjúkdóma eða slyss þá fengi ég örorkulífeyri í takt við það sem ég hef greitt inn í sjóðinn. Það er ekki bara einhver ein upphæð fyrir alla. 

Image00005 (2) Image00005 (2)
Image00005 (2) Image00005 (2)

Harpa ferðast mikið innanlands með fjölskyldunni.

Og að makalífeyrir er greiddur þar til yngsta barn verður 23 ára. Þar sem ég á þrjár litlar stelpur þá er þetta atriði sem skiptir mig miklu máli.

Svo hvað séreignin er mikilvæg og getur skipt sköpum til að komast inn á fasteignamarkaðinn með því úrræði sem nú er í boði vegna fyrstu kaupa. Hún hjálpaði okkur hjónunum að komast inná húsnæðismarkaðinn upphaflega sem og að komast í framtíðarhúsnæðið sem við erum að koma okkur fyrir í núna. 

Svo er eitt sem mér finnst áhugavert sem tengist meira þessari ímynd lífeyriskerfisins í samfélaginu. 

Nú hitti ég mikið erlenda aðila og finn mjög vel hve margir þeirra horfa með aðdáun til Íslands og lífeyriskerfisins hér. Þeir líta á okkur sem framsækna sjóði í fremstu röð. Það er mjög gaman að finna það hjá stórum virtum aðilum á markaðnum.

Image00003 Image00003
Image00003 Image00003

Fjölskyldan kom sér nýlega fyrir í framtíðarhúsnæði.

Annað sem mætti nefna einnig er hversu ítarlegt regluverk um fjárfestingarheimildir íslenskra lífeyrissjóða er í samanburði við lífeyrissjóði í löndunum í kringum okkur.  Mikið af takmörkunum sem koma þvert á hvor aðra og því mikið af atriðum sem þarf að hafa til hliðsjónar við fjárfestingarákvarðanir sem og í samningum við erlenda aðila svo að öllum sértækum reglum um fjárfestingar og eignarhald sé fylgt. 

Hvað kannt þú best að meta á vinnustaðnum?

Það fyrsta sem mér dettur í hug að mér finnst samstarfsfólk mitt vera virkilega heilsteypt fólk, velviljað og kemur vel fram við aðra. Það er líka mikill persónulega metnaður til að skila góðu starfi.  

Við erum fá svo að allir finna að þeirra starf er mikilvægt og fólk vill virkilega standa undir þeirri ábyrgð. 

Þetta er bara manneskjulegur vinnustaður. Ég hef sterka og góða tilfinningu fyrir því að ég er ekki bara starfsmaður heldur hefur fólk áhuga á mér og ber umhyggju fyrir mér sem manneskju. 

Image00009 Image00009
Image00009 Image00009

Harpa og stelpurnar í jólastemningu.

Hvað er framundan hjá þér og fjölskyldunni? Ertu byrjuð að spá í sumarið? 

Ég á þrjár ungar dætur svo það fer stór hluti af tímanum í að skapa minningar með fjölskyldunni og láta hjólin ganga í vinnu, einkalífi og fjölskyldu. 

Við fjölskyldan stungum aðeins af í sólina yfir hátíðarnar svo sumarið verður eflaust tekið í innanlands ferðalög. Við erum nýlega komin í framtíðarhúsnæði og þar þarf að nostra við eitt og annað ásamt því að koma okkur betur fyrir.

Þá erum við hjónin svo heppin að vera bæði utan af landi, hann frá Sauðárkróki og ég frá Grundarfirði svo við eigum víða góða heim að sækja. Því til viðbótar ólust mæður okkar beggja upp í sveitum sem við höfum aðgang að í dag.

Okkur hefur fundist meira frí og rólegra tempó með mörg ung börn að heimsækja fallegu plássin utan höfuðborgarsvæðisins en að stinga af erlendis yfir þennan stutta sumartíma.

Ég hef frá barnæsku alltaf verið á Ströndum á Vestfjörðum, þar sem móðir mín ólst upp, einhvern hluta af sumrinu. Amma mín og afi voru þar í búskap fram yfir aldamótin. Við fjölskyldan höfum svo farið nánast árlega þangað á sumrin í viku. Krakkarnir úti að leika og sniglast í fjörunni og njóta þess að vera með langafa og langömmu sem dvelja þar nú yfir sumartímann. Þetta eru stundir sem eru dýrmætar og skapa góðar minningar.

Image00001 (2)
Image00001 (2)

Uppáhaldstími fjölskyldunnar er sumarfríið á Ströndum.

Okkur finnst þetta öllum ómissandi partur af sumrinu og við hjónin getum ekki hugsað okkur að missa af þessari kyrrð og ró sem við upplifum á Ströndum. 

Viltu kynnast fleiri starfsmönnum sjóðsins? Viltu kynnast nokkrum sjóðfélögum?