Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

2017 í flokki með bestu árum sjóðsins sagði stjórnarformaður á ársfundi

Þetta ár mun fara í flokk með þeim bestu í sögu sjóðsins, hvað ávöxtun varðar, sagði Guðrún Hafsteinsdóttir stjórnarformaður þegar hún flutti skýrslu stjórnar um árið 2017 á ársfundi sjóðsins, sem haldinn var á Grand Hotel Reykjavík þann 21. mars 2018.

Guðmundur Þ. Þórhallsson framkvæmdastjóri gerði grein fyrir rekstri sjóðsins á árinu 2017. Meðal þess helsta sem fram kom er eftirfarandi:

Tryggingafræðileg staða sjóðsins styrktist og er nú jákvæð um 6,4%.

Ávöxtun eigna var 7,6% sem svarar til 5,7% hreinnar raunávöxtunar. Innlend skuldabréf skiluðu 4,5% raunávöxtun, innlend hlutabréf og hlutdeildarskírteini 4,2% og erlend verðbréf 10,1% raunávöxtun.

 

Fjármunatekjur 47 milljarðar

 

Eignir hækkuðu um 62 milljarða á árinu og námu í árslok 665 milljörðum. Fjármunatekjur voru 47 milljarðar.

Lífeyrisþegar voru að meðaltali 15.800 og greiddur lífeyrir var alls 13,4 milljarðar króna samanborið við 12,1 milljarð árið áður sem er hækkun um 10,9%. Ellilífeyrir var 9,4 milljarðar, örorkulífeyrir 2,5, maka- og barnalífeyrir nam 568 milljónum.

Rekstrarkostnaður nam 906 milljónum. „Þar af er launakostnaður sjóðsins og launatengd gjöld að fjárhæð að fjárhæð 634 milljónir og að auki er ýmiss kostnaður til þriðja aðila s.s. eftirlitsaðila, endurskoðenda og Umboðsmanns skuldara sem nam 184 milljónum króna, eða um fimmtungi af heildarrekstrarkostnaði sjóðsins. Kostnaður til þriðja aðila hefur farið hækkandi undanfarin ár með auknu eftirliti og flóknara starfsumhverfi Rekstrarkostnaður í hlutfalli af meðalstöðu eigna nam 0,14% sem er með því lægsta sem þekkist meðal lífeyrissjóðanna en framangreint hlutfall miðast við skilgreiningu Fjármálaeftirlitsins,“ sagði Guðmundur.

Stór skref tekin í átt til aukins gagnsæis

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður stjórnar greindi í skýrslu sinni frá nokkrum helstu breytingum sem urðu í stefnu og vinnubrögðum hjá sjóðnum á liðnu ári. Þar á meðal að tekin var upp sú nýbreytni að auglýsa eftir framboðum til stjórnarsetu fyrir hönd sjóðsins í félögum sem hann á hluti í. Valnefnd gerir tillögur til stjórnar um frambjóðendur og tekur stjórn sjóðsins endanlega ákvörðun um hver verði fyrir valinu. „Með því er tryggt að bæði ferlið sé faglegt og að fleiri en einn komi að hverri ákvörðun. Þá tekur stjórn LV í heild sinni afstöðu til tillagna valnefndar og tekur lokaákvörðunina. Stjórnarmönnum sem njóta stuðnings sjóðsins er kynnt eigendastefna hans en eru að öðru leyti óháðir í störfum sínum og sinna stjórnarstörfum sínum í þágu allra hluthafa líkt og kveðið er skýrt á um í hlutafélagalögum. Þessi breyting er mjög til bóta að mínu mati,“ sagði Guðrún.

„Það má segja að við höfum í fyrra tekið nokkur stór skref framávið í átt til aukins gagnsæis og samfélagslegrar ábyrgðar sem er í samræmi við það stóra hlutverk s em lífeyrissjóðirnir í heild sinni hafa leikið í atvinnulífinu síðustu ár. Einnig var árið nýtt til umræðu um með hvaða hætti sjóðurinn geti í auknum mæli tileinkað sér nýjustu hugmyndafræði á sviði ábyrgra fjárfestinga. Þar eru spennandi hlutir að gerast og mikil umræða í gangi, sem fjárfestar víða um heim taka þátt í, sagði hún.

Þá vísaði stjórnarformaður til þess að á síðasta ársfundi, 2017, hafi orðið töluverðar umræður um launamál sjóðsins og þá sérstaklega framkvæmdastjóra sjóðsins. „Stjórn tók þær ábendingar til sín og á síðasta ári fól stjórn óháðum ráðgjöfum að meta launakjör framkvæmdastjóra okkar í samanburði við aðra. Intellecta var falið verkefnið en árlega gera þeir launakönnun sem nær til um 4000 sérfræðinga, meðal annars þeirra er starfa á fjármálamarkaði. Niðurstaða þeirrar könnunar var að laun framkvæmdastjóra sjóðsins var í efri mörkum miðað við laun framkvæmdastjóra annarra

Í framhaldinu varð um það samkomulag með stjórn og framkvæmdastjóra að lækka laun framkvæmdastjóra sjóðsins um 9% og hefur sú lækkun þegar tekið gildi.

„Það skal tekið fram að laun framkvæmdastjórans hafa verið í frystingu síðan á vormánuðum 2016. Ef tekið er mið af launaþróun síðan 2016 til dagsins í dag og þessarar 9% launalækkunar má segja að laun framkvæmdastjóra hafi lækkað um 20%.

Já , við horfum til framtíðar með bættum stjórnarháttum, betri stjórnun og aukinni upplýsingagjöf,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Að lokinni auglýstri dagskrá var orðið gefið laust, enginn tók til máls og var fundi slitið.