Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Afnám skerðingar lífeyris frá TR forgangsverkefni

Við eigum að standa vörð um hag allra lífeyrisþega. Jafnvel þó að valdið til að breyta þessu sé ekki í okkar höndum, þá eigum við að þrýsta á að skerðingar lífeyris frá Tryggingastofnun verði afnumdar hið fyrsta. Það hlýtur að vera forgangsverkefni sjóðanna allra, sjóðfélaga þeirra og Landssamtaka lífeyrissjóða,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á ársfundi sjóðsins, sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík 26. ars 2019.

Guðmundur Þ. Þórhallsson framkvæmdastjóri gerði grein fyrir rekstri og afkomu sjóðsins á árinu 2018. Fram kom að vöxtur sjóðsins var heldur hægari en árið áður. Eignir jukust um 48 milljarða króna, áfram er áhersla á aukna dreifingu áhættu með fjárfestingum erlendis. Lífeyrisgreiðslur hækkuðu um 11% meðan lífeyrisþegum fjölgaði um 7,5%. Tryggingafræðileg staða er áfram traust, jákvæð um 5,4%.

Í ávarpi sínu kom formaður að aukinni áherslu á fjárfestingar erlendis og benti á að lífeyri sé ætlað að veita sjóðfélögum lífsviðurværi á efri árum. „Stór hluti neyslu er innfluttar vörur og þjónusta og því er eðlilegt að fjárfestingar lífeyrissjóða endurspegli það mynstur.“

Innviðafjárfestingar

Formaður rifjaði upp að í vaxandi mæli hafi verið rætt um annars vegar skort á innviðafjárfestingum hérlendis samtímis og um fátt sé rætt meira á vettvangi evrópskra lífeyrissjóða. „Þau miklu tíðindi urðu í gær að eitt stærsta fyrirtæki heims á sviði innviðafjárfestinga, hið ástralska Macquarie, keypti meirihluta í HS Orku. Sú fjárfesting markar tímamót hér á landi.“

Formaður rifjaði því næst upp aðkomu lífeyrissjóðsins að fjármögnun innviða með skuldabréfakaupum, fyrst og fremst af ríkinu og opinberum stofnunum og sveitarfélögum. Síðan sagði Guðrún: „Alþingi samþykkti nýverið samgönguáætlun þar sem gert er ráð fyrirumtalsverðri uppbyggingu samgönguinnviða umfram það sem áður var ráðgert. Framkvæmdir upp á allt að 60 milljarða króna á næstu árum sem á eftir að fjármagna og þá þarf að taka afstöðu til þess hvort lífeyrissjóðir landsins taki þátt í Því verkefni.“ Leita þurfi svara við því hvort og hversu fýsilegar þessar fjárfestingar séu fyrir lífeyrissjóðina. „Á einhverjum tímapunkti munum við þurfa að svara því hvort við Íslendingar ætlum að láta erlenda fjárfesta og hið opinbera ein um innviðafjárfestingar eða hvort aðrir muni taka þátt í því og þá hugsanlega lífeyrissjóðir?“

Lífeyrissjóðakerfið 50 ára

Þá minntist formaður þeirra tímamóta að um þessar mundir eru liðin 50 ár frá því núverandi lífeyrissjóðakerfi var sett á stofn, fyrst með kjarasamningum og síðan löggjöf sem byggði á þeim. Hún vitnaði í orð Guðmundar H. Garðarssonar, fyrrum formanns sjóðsins í mörg ár og eins stofnenda hans, í ævisögu sinni: Bjarni Benediktsson forsætisráðherra beitti sér fyrir því við lausn kjaradeilna vorið 1969 að samið yrði við verkalýðshreyfinguna um stofnun lífeyrissjóða og skylduaðild að þeim. Hann sá að með þessu móti yrði ekki einasta unnt að tryggja öllum borgurum lífeyri eftir starfslok heldur yrði einnig unnið að dreifingu valdsins og þar með styrkari stoðum rennt undir lýðræðislega stjórnarhætti.“

Þá vitnaði Guðrún aftur í Guðmund H. Garðarsson um stöðuga varnarbaráttu gegn ásælni ríkisvaldsins í fjármuni sjóðanna, án tillits til hvaða stjórnmálaflokkar ættu í hlut. „Allir þurftu peninga til að fjármagna sín mikilvægu samfélagsverkefni. Gallinn er, að það er bara ekki hlutverk lífeyrissjóðanna að fjármagna áhugamál stjórnmálamanna, hvort sem þeir tilheyra stjórnmálaflokkum eða öðrum samtökum.“

Þá vitnaði Guðrún í grein á vef Alþýðusambands Íslands um sögu lífeyriskerfisins, þar sem skýrt er tekið fram að lífeyrissjóðunum hafi í upphafi verið ætlað að vera viðbót við almannatryggingakerfið og standa undir verulega bættum kjörum lífeyrisþega, sem mikil þörf var á. „Viðbót. Þeim var ætlað að vera viðbót. Umræddar skerðingar á lífeyri Tryggingastofnunar vegna lífeyrisgreiðslna, innsk.]ganga því í raun gegn sjálfri hugmyndinni um stofnun lífeyriskerfisins. Ég minni á að ríkisvaldið stóð að þessu samkomulagi á sinn hátt, meðal annars með lagasetningu sem tók gildi í byrjun árs 1970 á grundvelli kjarasamninganna um stofnun lífeyrissjóðanna.“

Forgangsverkefni sjóðanna og Landssamtakanna

Guðrún sagði Ísland skera sig úr að þessu leyti. „Ekkert þeirra ríkja sem við viljum bera okkur saman við beitir samskonar skerðingum og þær skaða þannig stórlega orðspor lífeyrissjóðanna, þrátt fyrir að þeir beri alls enga ábyrgð á þeim. Ég tel að við sem berum hag lífeyriskerfisins fyrir brjósti, störfum við það eða sitjum þar í stjórn, hljótum að vilja breyta þessu. Við eigum að standa vörð um hag allra lífeyrisþega. Jafnvel þó að valdið til að breyta þessu sé ekki í okkar höndum þá eigum við að þrýsta á að skerðingar lífeyris frá Tryggingastofnun verði afnumdar hið fyrsta. Það hlýtur að vera forgangsverkefni sjóðanna allra, sjóðfélaga þeirra og Landssamtaka lífeyrissjóða.“

Að lokum minnti formaður á þær viðamiklu breytingar sem stöðugt verða á starfsemi lífeyrissjóðsins, oft vegna krafna í lögum eins og nýlega við stofnun áhættustýringardeildar. „Tilkoma áhættustýringar sýnir vel hvernig starfsemi sjóðsins hefur breyst og aukist að umfangi á stuttum tíma í þeim tilgangi að auka öryggi í bæði fjárfestingum og rekstri sjóðsins.“

Aðrar breytingar séu hins vegar sýnilegri eins og að sjóðurinn opnaði á vordögum Facebook-reikning og hefur skilaboðum og upplýsingum verið reglulega og markvisst miðlað þar með góðum árangri og viðtökur verið afar jákvæðar. Þá var ásýnd sjóðsins öll endurnýjuð á haustdögum. „Við fengum nýtt merki, litir voru endurnýjaðir og nýtt letur innleitt, allt bréfsefni sjóðsins, tölvupóstur og vefurinn fengu þannig nýtt og nútímalegra yfirbragð. Þessi nýja ásýnd hefur sannarlega líka hjálpað okkur að ná meiri og jákvæðari athygli til dæmis á samfélagsmiðlum.“

Guðrún Hafsteinsdóttir þakkaði að lokum sjóðfélögum og samstarfsfólki samstarfið undanfarin þrjú ár, en kjörtímabili hennar sem formanns er nú lokið. 

Arsfundur2019 1 Arsfundur2019 1
Arsfundur2019 1 Arsfundur2019 1

Frá ársfundi LV