Ársfundur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var haldinn á Grand Hótel Reykjavík 28. mars 2023. Á fundinum var einna helst fjallað um krefjandi fjárfestingarumhverfi síðasta árs og áhrif breytinga á samþykktum sem tóku gildi um áramótin og eru nú að fullu komnar til framkvæmda með hækkun greiðslna og auknum réttindum.
29. mar. 2023
Fjárfestingarumhverfið og ávöxtun
Á síðasta ári hækkuðu bæði verðbólga og stýrivextir umtalsvert bæði hér heima og erlendis. Í slíku umhverfi eiga fjármálamarkaðir jafnan erfitt uppdráttar en bæði hluta- og skuldabréf lækkuðu töluvert í verði bæði innanlands og erlendis. Afkoma eignasafna ber þess glögg merki. Nafnávöxtun sameignardeildar var -3,6% og raunávöxtun var -11,9%. Langtímaávöxtun er hins vegar góð og nemur árleg raunávöxtun sjóðsins undanfarin tíu ár 5,3%.
Mikil hækkun lífeyrisgreiðslna
Lífeyrisgreiðslur hafa vaxið hratt undanfarin ár og námu 26,3 milljörðum á árinu 2022 samanborið við tæpa 23 milljarða árið áður. Fjöldi sjóðfélaga sem fengu greiddan lífeyri var yfir 22 þúsund. Í september 2022 greiddi sjóðurinn yfir 2 milljarða króna í lífeyri en í mars 2023 var sú upphæð komin yfir 2,5 milljarða.
„Sjóðfélagar á lífeyri hafa undanfarin tvö ár notið góðs af hækkunum lífeyris hjá sjóðnum sem nema samtals um 18% sem er afar ánægjulegt. Að auki eru lífeyrisgreiðslur verðtryggðar. Sem dæmi má nefna þá hafa lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum frá ársbyrjun 2021 til ársloka 2022 hækkað samtals um 35% í krónum talið, - segir Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Nýjar samþykktir auka sveigjanleika sjóðfélaga verulega. Sem dæmi má nefna þá geta sjóðfélagar nú valið að hefja eftirlaun frá 60 ára aldri. Þannig gátu um 7000 fleiri sjóðfélagar hafið töku sinna eftirlauna um áramótin – þar af voru 800 sem óskuðu eftir afgreiðslu strax.
Makalífeyrir: Áfallavernd við fráfall maka
Lágmarkstímabil makalífeyris var lengt um 2 ár. Yfir 100 sjóðfélagar á makalífeyri fengu 2 ár á hálfum makalífeyri til viðbótar við fyrri rétt. Rétt er þó að taka fram að aðeins um 6% þeirra sem fá greiddan makalífeyri fá greiddan lágmarksrétt. Langflestir eða 94% þeirra sem fá makalífeyri, fá greitt lengur t.d. þar til yngsta barn verður 23 ára.
Árs- og sjálfbærniskýrsla: Sjálfbær lífeyrir
Samþætt árs- og sjálfbærniskýrsla sjóðsins er nú aðgengileg á vefnum og er ætlað að upplýsa sem best sjóðfélaga og aðra hagaðila um stöðu sjóðsins og stefnu í lykilatriðum. Í fyrsta sinn er nú sjálfbærniupplýsingum miðlað samhliða öðrum lykilupplýsingum í rekstri sjóðsins sem er enn eitt skrefið til að styðja við stefnu sjóðsins um sjálfbæran lífeyri og ábyrgar fjárfestingar.
Helstu tölur fyrir árið 2022
Heildareignir sameignar- og séreignardeilda námu í árslok 1.173 milljörðum.
Iðgjöld til sjóðsins hækkuðu um 10,6% á milli ára og námu 42,5 milljörðum króna.
Lífeyrisgreiðslur hækkuðu um 15% á milli ára og námu 26,3 milljörðum króna.
Fjöldi á lífeyri var 22.115.
Um 49 þúsund greiddu iðgjöld til sjóðsins.
Tryggingafræðileg staða var -5,6% í árslok 2022 samanborið við 3,5% árið áður. Breytingin kemur til vegna samþykktabreytinga, verðbólgu og neikvæðrar ávöxtunar á árinu.