Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Breyting réttinda, meira fyrir maka og fleiri ár á lífeyri

Nú um áramótin tóku gildi margvíslegar breytingar á samþykktum LV sem samþykktar voru á ársfundi sjóðsins í mars 2022.

Liv Lifeyrissjodur Verslunarmanna 1361 1022 Liv Lifeyrissjodur Verslunarmanna 1361 1022

Helstu breytingar eru þær að greiðslur og áunnin réttindi hækka, þá lengist lágmarksgreiðsla á makalífeyri og þeir sem eru áfram í vinnu samhliða eftirlaunum fá nú árlegan endurútreikning.

"Við erum afar stolt af því að geta hækkað réttindi í annað sinn á rúmu ári og hafa lífeyrisgreiðslur samtals hækkað um 17,9% auk þess sem greiðslur eru verðtryggðar. Við erum jafnframt að mæta breyttum þörfum sjóðfélaga þar sem mögulegt er að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri. Mun fleiri velja nú að vinna samhliða því að fá greidd eftirlaun og greiða því í sjóðinn áfram. Við tryggjum hag þeirra enn betur með því að endurreikna réttindi oftar," - segir Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri LV.

Sjóðfélagar geta séð áhrif breytinganna á mitt.live.is og nánari upplýsingar hér . 

Aukinn sveigjanleiki og áfallavernd í takt við tímann

Þá taka gildi ýmsar nýjungar sem auka sveigjanleika og áfallavernd sjóðfélaga. Nú geta sjóðfélagar hafið töku eftirlauna fyrr en áður eða frá 60 ára aldri. Aðeins 6 mánuði tekur nú að ávinna sér aftur rétt til framreiknings ef sjóðfélagi hefur verið fjarverandi af vinnumarkaði vegna náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna í allt að 36 mánuði. Áður tók það 36 mánuði að ávinna sér þann rétt aftur. 

"Þetta eru dýrmæt réttindi ef fólk missir heilsuna og starfsorku. Þá er mikill munur á því hvort þú sem sjóðfélagi færð eingöngu þau réttindi sem þú hefur áunnið þér eða framreiknuð réttindi sem eru eins og þú hefðir greitt til 65 ára aldurs, - segir Margrét Kristinsdóttir, forstöðumaður lífeyrissviðs LV.

Lengri ævi og fleiri ár á lífeyri

Þótt allir sjóðfélagar fái hækkun réttinda eru samhliða innleiddar nýjar spár um lífslíkur sem fjármálaráðuneytið gaf út 2021 og lífeyrissjóðum ber að innleiða. Þeir sem yngri eru muni að jafnaði lifa lengur og eigi því fleiri eftirlaunaár í vændum en áður var spáð. Því yngri þeim mun lengri ævi.

Samanlögð áhrif góðrar ávöxtunar sjóðsins undanfarin ár og aðlögunar réttinda að hækkandi lífaldri koma fram með eftirfarandi hætti:

 

  1. Hækkun áunninna réttinda um 10% í nóvember 2021
  2. Hækkun áunninna réttinda um 12% um áramót 2022/3 ásamt ýmsum auknum réttindum.
  3. Aðlögun að hækkandi lífaldri þar sem sjóðurinn gerir ráð fyrir að greiða fleiri greiðslur til hvers og eins sjóðfélaga, mismikið eftir fæðingarári. 

 

Við hvetjum sjóðfélaga til að skoða  mitt.live.is og hafa samband við þjónustuver ef spurningar vakna.

Nánari upplýsingar um breytingarnar má finna hér og í nýjum samþykktum sjóðsins.