Breytingar á hlutverki lífeyrissjóða m.t.t. ábyrgra fjárfestinga
Landssamtök lífeyrissjóða héldu á dögunum málþing um breytingar á hlutverki lífeyrissjóða með tilliti til ábyrgra fjárfestinga. Einn frummælenda var Tómas Njáll Möller yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Hér á eftir fer frásögn af erindi hans á málþinginu, birt með góðfúslegu leyfi Landssamtakanna.
15. nóv. 2019
Panell dagsins: Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu - miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð, dr. Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands, Tómas Njáll Möller og Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
Siðferðileg viðmið og ávöxtun fjárfestinga
„Við erum komin núna talsvert frá viðmiðum sem lengi hafa ríkt, og voru meðal annars ákveðin með lífeyrissjóðalögum 1997. Þar var kveðið á um að við fjárfestingar skuli horfa fyrst og síðast til hámarksávöxtunar að teknu tilliti til áhættu.
Með vísan í siðferðileg viðmið, þróun ESB-réttar og fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða yfirleitt má færa rök fyrir því að okkur beri jafnframt að horfa til sjálfbærrar þróunar og hagsmuna haghafa í víðara samhengi, svo sem hagsmuna starfsfólks, kröfuhafa, náttúruauðlinda og nánasta umhverfis sem og í auknum mæli til langtímasjónarmiða.
Með þessu er þó ekki horfið frá þeirri meginreglu að umboð lífeyrissjóða snúi fyrst og fremst að því að ávaxta eignir sjóðfélaga. Ítrekaðar rannsóknir sýna hins vegar að þar sem þessum þáttum er sinnt er langtímaávöxtun fjárfestingar almennt síst lakari og yfirleitt traustari en ella.
UFS-viðmiðin eru í auknum mæli höfð til hliðsjónar nú þegar hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og fleiri lífeyrissjóðum hér á landi þegar fjallað er um fjárfestingar og rekstur eignasafna. Markmiðið er að bæta áhættustýringu, styðja við trausta ávöxtun til lengri tíma og endurspegla þau gildi sem fjárfestar líta til í þeim fjárfestingum sem sjóðirnir leggja til fjármagn og birt eru í eigendastefnu þeirra.
Hugmyndafræði um ábyrgar fjárfestingar og UFS kemur ekki í staðinn fyrir hefðbundin viðmið, þegar fjallað er um fjárfestingar, heldur eru þær til viðbótar hefðbundnum eignastýringaraðferðum sem tæki til að stækka sjóndeildarhringinn.
Með þessu móti skuldbinda lífeyrissjóðir sig í reynd til þess að vera í ákveðnum skilningi virkari eigendur í félögum, kalla þar eftir upplýsingum og upplýsa sjálfir nánar en áður um til hvers þeir ætlast af félögum sem þeir eiga hluti í.“
Skýrar reglur um starfskjarastefnu í nýrri reglugerð
Tómas hvatti til þess að stofnanafjárfestar á Íslandi, þar á meðal lífeyrissjóðir, færu í það strax að búa sig undir og tileinka sér vinnubrögð sem kveðið sé á um í tilskipunum og reglugerðum frá Evrópusambandinu sem vænta megi að verði lögfestar hérlendis innan tíðar, enda væru eða yrðu þær hluti af EES-samningnum og þar með hluti af íslenskum lögum.
„Ég nefni tilskipun sem tók gildi í ESB í sumar og mun væntanlega leiða til breytinga á íslenskum hlutafjárlögum. Hún varðar skráð félög og starfsemi stofnanafjárfesta og nefnist Shareholder Directive II. Ýmsir innlendir fjárfestar og skráð félög horfa þegar til þeirra reglna sem þarna er að finna. Kveðið er á um að stofnanafjárfestar marki sér ítarlega stefnu um hvernig þeir hagi sér gagnvart félögum sem fjárfest er í, veiti upplýsingar um hvernig stefnunni sé framfylgt og tengi hana við langtímahugsun varðandi eignasöfn sín.
Þarna er líka krafist gegnsæis í starfsemi fjármálafyrirtækja sem aðstoða stofnanafjárfesta og ráðgjafa sömuleiðis, til dæmis varðandi atkvæðagreiðslur á hluthafafundum.
Hlutafélögum ber skylda til að þekkja hluthafa sína og lagðar eru ákveðnar skyldur á milliliði á fjármálamarkaði í því sambandi. Þannig er þeim fjármálastofnunum sem sinna vörsluaðild til dæmis gert að miðla upplýsingum um hluthafa til viðkomandi félaga.
Enn má nefna að þarna eru skýrari reglur um starfskjarastefnu og hertar reglur um viðskipti tengdra aðila í félögum.
Þegar á heildina er litið kveður tilskipunin á um enn meiri kröfur til stofnanafjárfesta um eigendaskyldu en veitir þeim um leið meiri réttindi.“
Einkageirinn fjármagni loftslags- og orkutengd verkefni að stærstum hluta
Síðast en ekki síst nefndi Tómas væntanlega reglugerð ESB sem varðar UFS-viðmið og áhættu. Hann telur að hún muni vafalaust hafa mikil áhrif í starfsemi stofnanafjárfesta (regulation ondisclosures relating to sustainable investment and sustainable risk). Í reynd verði lögð á þá skylda að gera sér betur grein fyrir áhættuþáttum sem tengjast umhverfisþáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum, hvernig þessir þættir hafi áhrif á eignasöfn. Einnig að stofnanafjárfestar útskýri það með aðgengilegum hætti fyrir endafjárfesti með hvaða hætti UFS-þættir geti haft áhrif á áhættu varðandi stýringu eignasafns þeirra.
„Stofnanafjárfestar verða líka að líta til þjónustu sem þeir kaupa af eignarstýringarfyrirtækjum og mögulega greina nánar en nú er gert hvernig sú þjónusta rími við markmið og stefnu þeirra.
Þessi reglugerð tekur að öllum líkindum gildi á næstu mánuðum í ESB og við ættum ekki bíða neitt með að kynna okkur efni hennar og inntak.
Við beitingu UFS-viðmiða við eignastýringu skiptir máli að líta fyrst og fremst til þeirra atriði sem geta haft efnisleg áhrif við mat á umhverfislegum, félagslegum og stjórnarháttarlegum atriðum. Að horfa á aðalatriði en ekki aukaatriði og varast „box ticking“ og „grænþvott“.
Þegar fjallað er um ábyrgar fjárfestingar og ábyrgan rekstur fyrirtækja er í auknum mæli viðurkennt að einkum skuli líta til þess hvernig hagnaðurinn verður til fremur en hvernig honum er ráðstafað. Nú er til dæmis síður spurt um hvaða íþróttafélög, skákklúbbar eða stjórnmálaflokkar fái fjárstyrki. Fyrst og fremst er litið til þess hvernig fyrirtækin „búa til hagnað“, hvaða fótspor starfsemin skilur eftir sig, hvernig fyrirtæki nýta auðlindir jarðar og svo framvegis.
Í þessu geta falist heilmikil tækifæri miklu frekar en ógnir. Svo dæmi sé tekið áætlar ESB að það þurfi um 180 milljarða evra á ári til 2030 í loftslags- og orkutengd verkefni. Verulegur hluti þess þurfi að koma frá einkageiranum.
Bent hefur verið á það á öðrum vettvangi að góð fjárfestingartækifæri geti falist í verkefnum sem tengjast umbótum í framleiðsluferli og virðiskeðju fyrirtækja. Þar getið farið saman sjálfbærni, nýsköpun og góð fjárfestingartækifæri.“