Eignir 1.013 milljarðar og ávöxtun 14,7%
Rekstur LV gekk vel á árinu og afkoma eignasafna var góð þrátt fyrir krefjandi aðstæður vegna heimsfaraldurs. Heildareignir námu 1.013 milljörðum króna um áramót og jukust þær um 145 milljarða króna á árinu.
20. feb. 2021
Rekstur LV gekk vel á árinu og afkoma eignasafna var góð þrátt fyrir krefjandi aðstæður vegna heimsfaraldurs. Heildareignir námu 1.013 milljörðum króna um áramót og jukust þær um 145 milljarða króna á árinu. Þar af námu fjárfestingatekjur 130 milljörðum króna. Sjóðfélögum á lífeyri fjölgaði áfram á árinu og voru um 20 þúsund í lok árs samanborið við 19 þúsund árið áður. Ávöxtun eigna var góð líkt og undanfarin ár og er sjóðurinn vel í stakk búinn til að takast á við þær áskoranir sem fylgja hækkandi lífaldri þjóðarinnar.
Ársskýrsla LV veður birt í aðdraganda ársfundar. Þar eru sífellt ítarlegri upplýsingar um starfsemi sjóðsins sem gefa sjóðfélögum og öðrum haghöfum tækifæri til að glöggva sig á starfseminni.
Helstu tölur fyrir árið 2020:
- Lífeyrisgreiðslur jukust um 12,5% og voru alls 18 milljarðar króna úr sameignardeild til 20 þúsund lífeyrisþega, eða 7,4% fleiri en árið áður
- 48 þúsund sjóðfélagar greiddu iðgjöld til sjóðsins
- Tryggingafræðileg staða Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er jákvæð sem nemur 10,9%. Sú staða þýðir að sjóðurinn er vel í stakk búinn til að takast á við þá áskorun sem leiðir af hækkandi aldri þjóðarinnar og þar með að sjóðfélagar fá greiddan lífeyri lengur en áður
- Heildareignir voru 1.013 milljarðar króna í lok árs 2020, eða sem nemur 145 milljörðum meiri en árið áður
- Langtímaávöxtun sjóðsins er áfram góð, fimm ára árleg meðalávöxtun er 6,2%, tíu ára meðalávöxtun 6,7% og 20 ára meðalávöxtun er 4,5%
- Ávöxtun eigna 2020 nam 14,7% sem samsvarar 10,8% hreinni raunávöxtun. Fjárfestingatekjur á árinu voru 130 milljarðar
- Vægi erlendra eigna hækkaði og var í lok ársins 43% eignasafnsins
Vaxandi eignir
Eignir hækkuðu alls um 145 milljarða króna á árinu 2020, þar af voru fjárfestingatekjur 130 milljarðar, og námu eignirnar samtals 1.013 milljörðum samanborið við 868 milljarða árið áður.
Mikil áhættudreifing eigna
Eignasafn sjóðsins er vel áhættudreift. Erlend verðbréf voru um 43% heildareigna í lok ársins samanborið við 40% í árslok 2019. Um 17% eignanna eru í innlendum hlutabréfum, 17% í ríkisskuldabréfum. Sjóðfélagalán námu 95,8 milljörðum, eða um 9,5% af heildareignum samanborið við 120,7 milljarða og 14% af eignum árið áður.
Lífeyrisgreiðslur aukast stöðugt
Á árinu 2020 fengu að meðaltali 20 þúsund sjóðfélagar lífeyrisgreiðslur úr sameignardeild sjóðsins (ellilífeyrir, örorku-, maka- og barnalífeyrir) samanborið við 19 þúsund árið áður. Lífeyrisgreiðslur úr sameignardeild sjóðsins voru að fjárhæð 18 milljarðar króna. Árið áður námu lífeyrisgreiðslur úr sameignardeild 16 milljörðum og hækkuðu því um 12,5%. Lífeyrisgreiðslur úr séreignardeild námu 1 milljarði króna.
Sterk tryggingafræðileg staða
Tryggingafræðileg staða er mælikvarði á getu sjóðsins til að standa undir lífeyrisskuldbindingum sínum. Undanfarin ár hefur tryggingafræðileg staða sjóðsins verið sterk og styrktist enn á liðnu ári, var jákvæð um 10,9% í lok ársins samanborið við 8,6% árið áður.
Góð langtímaávöxtun
Langtímaávöxtun sjóðsins og tryggingafræðileg staða er góð og styrkir stoðir undir réttindi sjóðfélaga og gerir sjóðnum kleift að takast á við þær áskoranir sem fylgja hækkandi lífaldri þjóðarinnar.