Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Eitt besta árið í sögu sjóðsins

2019 var metár í 63 ára sögu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Vöxtur og velgengni einkenndu alla þætti í starfi sjóðsins. Lífeyrisþegar fengu greiddan meiri lífeyri en nokkru sinni fyrr, eignir jukust meira en dæmi eru um áður enda fjárfestingatekjur meiri en nokkru sinni fyrr og ávöxtun eigna hefur aðeins einu sinni áður orðið meiri, árið 2005. Vegna þessa góða árangurs og afkomu undanfarinna ára er sjóðurinn vel í stakk búinn til að takast á við þá áskorun sem fylgir hækkandi lífaldri þjóðarinnar.

Nokkrar helstu tölur í árslok 2019:

 

  • Eignir í Lífeyrissjóði verzlunarmanna voru 868 milljarðar króna í lok árs 2019, eða sem nemur 155 milljörðum meiri en árið áður.
  • Ávöxtun eigna nam 18,7% sem samsvarar hreinni raunávöxtun 15,6%. Fjárfestingartekjur á árinu 2019 voru 136 milljarðar.
  • Langtímaávöxtun sjóðsins er áfram góð, fimm ára meðalávöxtun er 6,1%, tíu ára meðalávöxtun 6,0% og 20 ára meðalávöxtun er 4,1%.
  • Vægi erlendra eigna hækkaði og var í lok ársins 40% eignasafnsins.
  • Lífeyrisgreiðslur jukust um 12% og voru alls 16 milljarðar króna úr samtryggingardeild til 19 þúsund lífeyrisþega, eða 7,8% fleiri en árið áður.
  • 51 þúsund sjóðfélagar greiddu iðgjöld.

 

Vaxandi eignir

Eignir hækkuðu alls um 155 milljarða króna á árinu 2019, þar af voru fjárfestingatekjur 136,2 milljarðar, og námu eignirnar samtals 868 milljörðum samanborið við 713 milljarða árið áður.

Mikil áhættudreifing

Eignasafn sjóðsins er vel áhættudreift. Erlend verðbréf voru um 40% heildareigna í lok ársins samanborið við 35% í árslok 2018. Um 16% eignanna eru í innlendum hlutabréfum, 19% í ríkisskuldabréfum. Sjóðfélagalán námu 120,7 milljörðum, eða um 14% af heildareignum samanborið við 92,3 milljarða og rúm 13% af eignum árið áður.

Lífeyrisgreiðslur hafa vaxið mikið

Á árinu 2019 fengu að meðaltali 19 þúsund sjóðfélagar lífeyrisgreiðslur úr samtryggingardeild sjóðsins samanborið við tæp 18 þúsund árið áður. Lífeyrisgreiðslur úr samtryggingardeild sjóðsins voru að fjárhæð 16.039 milljónir króna. Árið áður námu lífeyrisgreiðslur úr samtryggingadeild 14.315 milljónum og hækkuðu því um 12%. Lífeyrisgreiðslur úr séreignardeild námu 684 milljónum króna.

Sterk tryggingafræðileg staða

Tryggingafræðileg staða er mælikvarði á getu sjóðsins til að standa undir lífeyrisskuldbindingum sínum. Undanfarin ár hefur tryggingafræðileg staða sjóðsins verið sterk og styrktist enn á liðnu ári, var jákvæð um 8,6% í lok ársins samanborið við 5,4% árið áður.

Góð langtímaávöxtun

Raunávöxtun sjóðsins á árinu 2019 var einhver hin besta í sögu sjóðsins, 15,6%. Aðeins einu sinni áður hefur náðst betri ávöxtun, árið 2005.