Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Fyrsta sjálfbærniskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Sjálfbærniskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var kynnt á ársfundi sjóðsins þann 23. mars 2021. Þetta er fyrsta sjálfbærniskýrsla sjóðsins og er til marks um víðtæka áherslubreytingu í allri starfsemi sjóðsins, sem að hluta til hefur komið til framkvæmda undanfarin ár og verður með vaxandi þunga innleidd á næstu árum.

Ársskýrsla sjóðsins vegna 2020 var kynnt á fundinum og er hún meiri að vöxtum en fyrri ár, einmitt vegna sjálfbærniskýrslunnar, sem er hluti af ársskýrslunni. Guðmundur Þ. Þórhallsson framkvæmdastjóri sjóðsins gerði grein fyrir helstu þáttum starfseminnar á árinu 2020 og má sjá helstu niðurstöður í þessari frétt. Fram kom í máli hans að þótt útlitið hafi ekki verið gott á fyrsta fjórðungi ársins 2020 vegna heimsfaraldursins rættist allvel úr þegar leið á árið og endaði það með bestu rekstrarárunum. Sjóðurinn styrktist á flesta mælikvarða og er vert að nefna að ríflega fjórðungur heildareigna í sjóðnum hefur orðið til með tekjum af fjárfestingum á tveimur síðustu árum, eða 266 milljarðar af alls 1.013 milljörðum.

20 þúsund lífeyrisþegar fengu greidda 19 milljarða króna á árinu í lífeyri og jukust lífeyrisgreiðslur um 13% á árinu. Vel horfir til framtíðar þar sem tryggingafræðileg staða sjóðsins er traust, jákvæð um 10,9%, sem gerir sjóðinn vel í stakk búinn að standa undir skuldbindingum við þær krefjandi aðstæður að með hverju árinu lifir þjóðin lengur og sjóðfélagar taka lífeyri lengur en áður.

Tómas N. Möller, yfirlögfræðingur sjóðsins, gerði grein fyrir sjálfbærniskýrslunni, markmiðum hennar, þeim viðmiðum sem hún lýsir um starfsemi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og hvers megi vænta á næstu árum. Ákvarðanir hafa verið teknar um stefnumótandi áherslur varðandi samfélagsábyrgð og sjálfbærni í allri starfsemi sjóðsins og er þar meðal annars stuðst við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Með þessu tekur LV stórt og afgerandi skref til sjálfbærni og samfélagsábyrgðar í starfi sínu og fjárfestingum og mun þessi stefnumörkun verða æ meira áberandi næstu árin í starfsemi sjóðsins.

Sjálfbærniskýrslu sjóðsins má sjá hér og Ársskýrsluna í heild hér.