• Heildareignir 1.458 milljarðar • Afkoma eignasafna jákvæð um 170 milljarða • 12,4% nafnávöxtun sameignardeildar: 7,3% raunávöxtun • Aukið jafnvægi eigna og skuldbindinga • Lífeyrisgreiðslur yfir 40 milljarða, vaxa um 17% á árinu
21. feb. 2025
Góður vöxtur í lífeyrisgreiðslum – Greiddur lífeyrir yfir 40 milljarða
Fjöldi sjóðfélaga á lífeyri í árslok var 26.884 og hófu 2.860 töku eftirlauna á árinu. Lífeyrisgreiðslur sameignardeildar námu rúmum 40 milljörðum króna og hækkuðu um 17,0% frá fyrra ári.
Lífeyrisgreiðslur sameignardeildar eru verðtryggðar og hækka miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem hækkaði um 4,8% 2024.
Góð ávöxtun og vel dreifð eignasöfn
Afkoma eignasafna lífeyrissjóðsins var góð á árinu 2024. Hrein nafnávöxtun sameignardeildar var 12,4% og raunávöxtun 7,3%. Ávöxtunarleiðir í séreign skiluðu frá 8,2% til 13,0% nafnávöxtun.
Heildareignir sjóðsins námu 1.458 milljörðum króna í árslok 2024, samanborið við 1.288 milljarða árið áður.
Jákvætt framlag allra eignaflokka til ávöxtunar ársins
Undanfarin 10 ár hefur vægi hlutabréfa hækkað sem hlutfall af eignasafni sameignardeildar. Það felur í sér meiri áhættu en ella, en á móti má vænta hærri ávöxtunar til lengri tíma litið.
Framlag erlendra hlutabréfa til ávöxtunar ársins vó þyngst og innlenda hlutabréfasafnið skilaði einnig jákvæðri ávöxtun en framlag allra eignaflokka var jákvætt á árinu.
Í fjárfestingarstefnu sjóðsins er lögð áhersla á áhættudreifingu í eignasafninu og erlendar eignir eru mikilvægur þáttur í því samhengi. Í lok árs samanstóðu eignasöfnin af tugþúsundum fjármálagerninga. Þar af er 50% heildareigna á Íslandi, 37% í Norður-Ameríku og 9% í Evrópu.
Betri tryggingafræðileg staða
Tryggingafræðileg staða var -4,3% í lok árs 2024 en var -6,8% árið áður. Breytingin kemur til vegna góðrar ávöxtunar á árinu.