Hæstiréttur staðfestir lögmæti breytinga á samþykktum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er varða viðbrögð við því að sjóðfélagar lifi lengur
Hæstiréttur staðfestir lögmæti breytinga á samþykktum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er varða viðbrögð við því að sjóðfélagar lifi lengur
Hæstiréttur hefur staðfest lögmæti þeirra breytinga sem gerðar voru á samþykktum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) árið 2022 til að mæta hækkandi lífaldri sjóðfélaga. Dómstóllinn hafnaði með því kröfu um ógildingu á breytingum á tilteknum ákvæðum samþykktanna sem ráðist var í vegna þessa.
27. nóv. 2024
Aðdragandi samþykktabreytinga
Nýjar forsendur fyrir mati á lífslíkum sem lífeyrissjóðum ber að nota við útreikning lífeyrisskuldbindinga voru samþykktar af fjármála- og efnahagsráðherra í desember 2021. Þessar forsendur, svokallaðar lífslíkutöflur, miða nú við spá til framtíðar og gera ráð fyrir að yngri kynslóðir lifi lengur en þær eldri. Nýju lífslíkutöflurnar endurspegla þá þróun að þjóðin, þar á meðal sjóðfélagar, lifir lengur þó mismikið eftir aldri.
Þessar breytingar á útreikningsforsendum lífeyrisskuldbindinga hafa haft veruleg áhrif. Þær juku lífeyrisskuldbindingar sjóðsins um 77 milljarða króna, og teljast því einar stærstu forsendubreytingar á rekstri lífeyrissjóða frá setningu laga um lífeyrissjóði árið 1997.
Vegna þessara fordæmalausu breytinga voru skoðaðar ólíkar útfærslur með ráðgjöf tryggingastærðfræðinga og lögmanna. Markmiðið var að velja leið sem væri í samræmi við lög og réttlát fyrir alla sjóðfélaga.
Á ársfundi lífeyrissjóðsins í mars 2022 voru samþykktar tillögur stjórnar um breytingar á samþykktum vegna nýju lífslíkutaflanna. Breytingarnar tóku gildi um áramótin 2022/2023 að fenginni staðfestingu ráðherra. Þar sem áhrif breytinga á lífslíkum eru mismunandi eftir árgöngum þótti rétt að hver árgangur héldi óbreyttum verðmætum réttinda sinna fyrir og eftir breytingarnar. Markmiðið var að koma í veg fyrir flutning verðmæta milli kynslóða.
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna telur mikilvægt að Hæstiréttur hafi staðfest að þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar af hálfu sjóðsins séu í fullu samræmi við stjórnarskrá, lög um lífeyrissjóði og önnur gild viðmið.
Dómurinn hefur ekki áhrif á lífeyrisgreiðslur
Þar sem samþykktabreytingar komu að fullu til framkvæmda í ársbyrjun 2023 hefur dómurinn hvorki áhrif á réttindi sjóðfélaga eða lífeyrisgreiðslur.