Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Hlé á gjaldeyriskaupum framlengt

Í samráði við Seðlabanka Íslands hafa lífeyrissjóðirnir framlengt hlé á gjaldeyriskaupum til 17. september næstkomandi, en upphaflega var samið um það frá 17. mars og þá til þriggja mánaða.

Í yfirlýsingu frá Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra vegna þessa segir hann meðal annars: „Seðlabankinn þakkar þá samfélagslegu ábyrgð sem lífeyrissjóðirnir hafa sýnt í þeim þrengingum sem þjóðin gengur nú í gegnum. Samvinna bankans og sjóðanna hefur vakið athygli erlendis og hefur m.a. verið sérstaklega tilgreind í nýlegum umsögnum alþjóðlegra matsfyrirtækja.“

Þá áréttar hann það að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna séu mjög mikilvægar þegar horft sé fram á veginn, hvort sem litið sé til hagsmuna sjóðfélaga eða þjóðarinnar í heild. Þær feli í sér áhættudreifingu lífeyriseigna og koma í veg fyrir neikvæð áhrif útgreiðslu lífeyris á íslenskt hagkerfi í framtíðinni. Þá séu erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða nauðsynlegar til þess að viðhalda jafnvægi á greiðslujöfnuði við jákvæðan viðskiptajöfnuð, útflutningsdrifinn hagvöxt og sköpun nýrra starfa.

Yfirlýsing seðlabankastjóra í heild.