Ísland fremst annað árið í röð í alþjóðlegum samanburði lífeyriskerfa
Ísland fremst annað árið í röð í alþjóðlegum samanburði lífeyriskerfa
Íslenska lífeyriskerfið er í efsta sæti í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að og birt var að morgni 12. október 2022.
12. okt. 2022
Samanburðurinn nær til lífeyriskerfa í 44 ríkjum og er Ísland nú þátttakandi annað árið í röð. Næst á eftir Íslandi koma Holland og Danmörk og eru þessi þrjú ríki þau einu sem ná samanlagt yfir 80 stigum af hundrað mögulegum og lenda þar með í efsta flokki vísitölunnar. Ísland varð einnig í efsta sæti í fyrra, í fyrsta skipti sem það var með í samanburðinum og hækkar heildareinkunn Íslands nú frá fyrra ári.
Þessi samanburður lífeyriskerfa byggist annars vegar á talnaefni frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og öðrum fjölþjóðastofnunum og gagnabönkum, hins vegar á upplýsingum sem sérfræðingar hjá Mercer og fleiri hafa aflað í viðkomandi ríkjum.