Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Lánareglur breytast og vextir verðtryggðra lána lækka

Frá og með 3. október 2019 lækka fastir vextir verðtryggðra lána hjá sjóðnum úr 3,40% í 3,20% og vextir af óverðtryggðum lánum verða óbreyttir 5,14%. Þetta er samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins og munu samhliða þessu lánareglur sjóðfélagalána taka breytingum.

Stjórn sjóðsins hefur ákveðið breytingar á lánareglum sjóðfélagalána. Breytingarnar fela eftirfarandi í sér: Lánsréttur miðast við virka sjóðsfélaga eða þá sem hafa greitt iðgjald til sjóðsins í 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum, einnig eiga lánsrétt þeir sem greitt hafa til sjóðsins í samtals 36 mánuði. Hámarksfjárhæð láns verður 40 milljónir króna. Fastir vextir verðtryggðra lána lækka úr 3,40% í 3,20% og vextir af óverðtryggðum lánum verða óbreyttir 5,14%. Verðtryggð lán með breytilegum vöxtum verða ekki í boði fyrir nýja lánþega.

Eftirspurn eftir sjóðfélagalánum hefur aukist mikið frá því lánareglur voru rýmkaðar árið 2015. Þá voru sjóðfélagalán um 6% af heildareignum sjóðsins, en eru nú um 13% sem er með því hæsta í íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Sjóðfélagalán voru um síðustu mánaðamót um 107 milljarðar króna og í umsóknarferli hjá sjóðnum eru um 25 milljarðar króna að meðtöldum umsóknum um endurfjármögnun.

Mánuðina júlí, ágúst og september hefur umfang lánsumsókna þrefaldast miðað við sama tíma í fyrra. Öll fyrirliggjandi gögn benda til áframhaldandi vaxtar. Þessi vöxtur leiðir að óbreyttu til ójafnvægis í áhættudreifingu sjóðsins og því óhjákvæmilegt að stjórn bregðist við því. Eftir ítarlegar athuganir stjórnar með sérfræðingum sjóðsins, þ.á m. í útlánum, eignastýringu og áhættustýringu, er niðurstaðan eftirfarandi:

Lánsrétt eiga, að uppfylltum öðrum skilyrðum lánareglna:

  • sjóðfélagar sem hafa greitt iðgjöld í 6 af sl. 12 mánuðum eða
  • sjóðfélagar sem hafa greitt iðgjöld í 36 mánuði fyrir umsókn
  • makalífeyrisþegar enda hafi maki lánsumsækjanda átt lánsrétt
  • veiting nýs láns til endurfjármögnunar eldra láns hjá lífeyrissjóðnum er háð því skilyrði að viðkomandi sé með virkan lánsrétt.

Hámarksfjárhæð láns lækkar úr 50 milljónum króna í 40 milljónir.

Verðtryggð lán með breytilegum vöxtum verða ekki lengur í boði fyrir nýja lántaka.

Vextir af verðtryggðum lánum með föstum vöxtum lækka úr 3,40% í 3,20%.

Vextir af óverðtryggðum lánum með föstum vöxtum til þriggja ára verða áfram 5,14% en þess má geta að vextir af þessum lánaflokki hafa lækkað um 1,68% stig frá því í mars á þessu ári og eru í dag lægstu vextir óverðtryggðra íbúðalána með föstum vöxtum samkvæmt herborg.is.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur veitt sjóðfélagalán frá stofnun sjóðsins árið 1956. Sjóðurinn mun áfram veita virkum sjóðfélögum fasteignalán á samkeppnishæfum kjörum.

Ofangreindar breytingar taka gildi 3. október 2019.

Nánari upplýsingar er að finna hér á vef sjóðsins og í lánareglum. Sjóðfélögum er velkomið að hafa samband við þjónustuver sjóðsins.