Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

LV hlýtur viðurkenningu Festu, Viðskiptaráðs Íslands og Stjórnvísi fyrir Sjálfbærniskýrslu ársins

Sjálfbærniskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er gott dæmi um upplýsingagjöf sjálfbærniþátta eins og best verður á kosið að mati dómnefndar.
Hag2249 Hag2249
  • Dómnefnd hvetur aðra lífeyrissjóði til að taka sér upplýsingagjöf LV til fyrirmyndar.

  • Ábyrgar fjárfestingar og sjálfbærni í starfseminni eru grundvallarstoðir í stefnu sjóðsins.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hlaut í dag viðurkenningu Viðskiptaráðs Íslands, Stjórnvísi og Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrir Sjálfbærniskýrslu ársins. Skýrslan var fyrsta sjálfbærniskýrsla sjóðsins sem kynnt var í kjölfar stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Með sjálfbærniskýrslu LV kynnir sjóðurinn fyrir sjóðfélögum og öðrum haghöfum stefnumótun, markmið og árangur í sjálfbærnivegferð lífeyrissjóðsins. Aukin áhersla á sjálfbærni í starfsemi sjóðsins er ein af grundvallarstoðum í stefnumótun hans.

 

  • „Með sjálfbærni í rekstri lífeyrissjóðsins er horft til þriggja stoða sem eru, daglegur rekstur, högun lífeyrisréttinda og rekstur stórra eignasafna. Við erum hvergi nærri komin á endastöð í sjálfbærnivegferðinni. Verkefni og áskoranir eru ærnar en að sama skapi mörg tækifæri,” sagði Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri LV við móttöku viðurkenningarinnar.
  • „Opið og upplýst samtal við þá sem hagsmuna hafa að gæta skipta miklu máli fyrir öflugan rekstur og aðlögun sjóðsins að síbreytilegu rekstrarumhverfi“, segir Tómas N. Möller, yfirlögfræðingur LV og umsjónarmaður sjálfbærniskýrslunnar. „Leitað var eftir sjónarmiðum sjóðfélaga, stjórnar og starfsfólks sjóðsins um ýmsa þætti varðandi sjálfbærni í rekstri LV. Sjóðfélagar og aðrir haghafar eru einróma um að leggja beri mesta áherslu á góða stjórnarhætti og ábyrgar fjárfestingar.“

 

Sjóðfélagar LV eru í heildina um 178 þúsund og mega vera stoltir af umsögn dómnefndar:

„Sjálfbærniskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er gott dæmi um upplýsingagjöf sjálfbærniþátta eins og best verður á kosið. Í skýrslunni er farið yfir markmið, árangur og aðgerðir sjóðsins. Upplýsingarnar eru mælanlegar, samanburðarhæfar og viðeigandi fyrir starfsemi sjóðsins. Framsetning er skiljanleg og aðalatriði dregin fram á einlægan máta. Lífeyrissjóðir hafa gríðarleg áhrif í íslensku atvinnulífi, og því mikilvægt að aðrir lífeyrissjóðir taki sér upplýsingagjöf Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til fyrirmyndar.“