LV hlýtur viðurkenningu Festu, Viðskiptaráðs Íslands og Stjórnvísi fyrir Sjálfbærniskýrslu ársins
07. jún. 2022
07. jún. 2022
Sjálfbærniskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er gott dæmi um upplýsingagjöf sjálfbærniþátta eins og best verður á kosið að mati dómnefndar.
Dómnefnd hvetur aðra lífeyrissjóði til að taka sér upplýsingagjöf LV til fyrirmyndar.
Ábyrgar fjárfestingar og sjálfbærni í starfseminni eru grundvallarstoðir í stefnu sjóðsins.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hlaut í dag viðurkenningu Viðskiptaráðs Íslands, Stjórnvísi og Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrir Sjálfbærniskýrslu ársins. Skýrslan var fyrsta sjálfbærniskýrsla sjóðsins sem kynnt var í kjölfar stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Með sjálfbærniskýrslu LV kynnir sjóðurinn fyrir sjóðfélögum og öðrum haghöfum stefnumótun, markmið og árangur í sjálfbærnivegferð lífeyrissjóðsins. Aukin áhersla á sjálfbærni í starfsemi sjóðsins er ein af grundvallarstoðum í stefnumótun hans.
Sjóðfélagar LV eru í heildina um 178 þúsund og mega vera stoltir af umsögn dómnefndar:
„Sjálfbærniskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er gott dæmi um upplýsingagjöf sjálfbærniþátta eins og best verður á kosið. Í skýrslunni er farið yfir markmið, árangur og aðgerðir sjóðsins. Upplýsingarnar eru mælanlegar, samanburðarhæfar og viðeigandi fyrir starfsemi sjóðsins. Framsetning er skiljanleg og aðalatriði dregin fram á einlægan máta. Lífeyrissjóðir hafa gríðarleg áhrif í íslensku atvinnulífi, og því mikilvægt að aðrir lífeyrissjóðir taki sér upplýsingagjöf Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til fyrirmyndar.“