Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

LV leggur til árangurstengingu kaupverðs

Tillaga til hluthafafundar HB Granda um að félagið kaupi fjögur félög af Útgerðarfélagi Reykjavíkur hefur verið umfjöllunarefni fjölmiðla undanfarna daga. Hefur m.a. verið kallað eftir afstöðu LV til málsins, en sjóðurinn er einn stærstu hluthafanna í HB Granda. Hluthafafundurinn verður haldinn síðdegis í dag. Niðurstaða sjóðsins liggur nú fyrir og er eftirfarandi:

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) leggur fram breytingatillögu við fyrirliggjandi tillögu á hluthafafundi HB Granda síðar í dag varðandi kaup á fjórum félögum í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR). Tillagan felur í sér að endanlegt kaupverð verði tengt við afkomu næstu ára.

Að öðru leyti telur sjóðurinn að sölufélögin falli vel að rekstri HB Granda og að þau séu í samræmi við yfirlýsta stefnu þess um eflingu sölu- og markaðsstarfs. Þetta er niðurstaða sjóðsins eftir greiningu á fyrirliggjandi gögnum.

Tillagan felur í sér að gangi áætlanir seljanda eftir verður umsamið kaupverð greitt að fullu en ella kemur til lækkunar þess. Nánari útfærsla verði í höndum stjórnar HB Granda sem, ef tillagan verður samþykkt, verður falið að móta tillögu fyrir hluthafafund.