Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Mannfræðingur með mörg járn í eldinum

Þetta viðtal við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, stjórnarformann sjóðsins og Landssamtaka lífeyrissjóða, birtist á vefnum, Lífeyrismál.is, 7. nóvember 2018 og er birt með góðfúslegu leyfi landssamtakanna.

Hún stóð frammi fyrir því tuttugu og þriggja ára gömul vorið 1993 að taka við rekstri fjölskyldufyrirtækisins, með um rúmlega 40 manns á launaskrá þegar framkvæmdastjórinn, faðir hennar, varð bráðkvaddur innan við sextugt.

Hún fór í Versló til að læra að verða bisnesskona, ætlaði síðar í félagsráðgjöf en lét svo verða af því að feta í spor Sigríðar Dúnu Kvennalistaþingkonu og fyrirmyndar sinnar um fermingaraldur og læra mannfræði.

Auglýsing frá tímabilum í rekstri Kjöríss á vegg hjá markaðsstjóranum. Þær tvær elstu í miðjunni eru höfundarverk stofnandans, Hafsteins Kristinssonar. Til vinstri eru fjórar auglýsingar sem Guðrún Hafsteinsdóttir gerði eftir að hún tók við sem markaðsstjóri.Hún borgaði í lífeyrissjóðinn sinn og treysti honum til að halda um þá peninga og lífeyrisréttindi en spáði annars lítið í lífeyrismálin, líkt og á við um flesta aðra landsmenn. Kom reyndar fyrir að hún bölvaði lífeyrissjóðum upphátt þegar fjallað var í fréttatímum um tilteknar fjárfestingar þeirra. Þetta hefur breyst. Í seinni tíð talar hún fallega og af innblásinni sannfæringu um lífeyrissjóðakerfið.

Guðrún Hafsteinsdóttir er formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Landssamtaka lífeyrissjóða. Hún er sömuleiðis formaður Samtaka iðnaðarins og á þar með sjálfkrafa sæti í forystusveit Samtaka atvinnulífsins. Hún er í stjórn og háskólaráði Háskólans í Reykjavík. Sjálfsagt mætti tína enn fleira til ef að væri gáð.

Höldum svo því til haga að hún er markaðsstjóri Kjöríss en ver fleiri vinnudögum vikunnar á fundum í Reykjavík en í markaðsstússi í Hveragerði. Valdimar, bróðir hennar, er framkvæmdastjóri, löngu orðinn vanur því að markaðsstjórinn sé oft á fartinni annars staðar og í allt öðrum erindagjörðum en að selja ís. Á því vel við það sem Kári Sölmundarson sagði í Njálu um Björn bónda í Mörk: „Ber er hver að baki nema sér bróður eigi“.

Aðsetur bróðurins og Kjöríss í okkar sögu er hins vegar að Austurmörk í Hveragerði.

Áhugaverð áskorun að taka við formennsku

„Hlutir æxluðust þannig að þegar Samtök atvinnulífsins (SA) skipuðu mig í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna árið 2016 var komið að því að atvinnurekendur tækju við stjórnarformennsku og ég fékk keflið afhent. Svipuð staða kom upp í Landssamtökum lífeyrissjóða snemma árs 2018. Ég gaf kost á mér til stjórnarsetu fyrir SA og þá var komið að því að atvinnurekendur tækju við formennskunni. Þorbjörn Guðmundsson stóð sig gríðarlega vel sem formaður og í minn hlut kom að taka við þegar hann hætti.

Starfið í forystu lífeyrissjóðakerfisins er mikil áskorun og áhugaverð. Eftir því sem ég kynnist kerfinu betur og læri meira á gangverk þess, þeim mun vænna þykir mér um lífeyrissjóðina og ég er stolt af þeim sem voru svo framsýnir að koma þeim á laggir í kjarasamningum 1969. Lífeyrissjóðakerfið er meðal þess besta sem íslensk þjóð hefur komið sér upp og á.

Veit ég samt vel að til eru hópar sem falla á milli kerfa lífeyrissjóða og almannatrygginga og fá lítið úr lífeyrissjóðum. Ætlast verður til þess að almannatryggingakerfið haldi betur utan um þá sem ná aldrei að öðlast fullþroskuð lífeyrisréttindi.“

– Samspil opinbera kerfisins og lífeyrissjóða birtist í skerðingu hjá almannatryggingum. Það hleypir illu blóði í fólk sem telur sig svikið á efri árum. Hverju svarar þú því?


„Ég skil mætavel gremju fólks vegna aðstæðna sem sköpuðust við það að misvitrir stjórnmálamenn hrærðu í málum sem þeir hefðu betur látið ógert. Þeir áttu að gefa lífeyrissjóðakerfinu tíma til að þroskast til fulls og taka í fyllingu tímans við af almannatryggingum sem fyrsta stoð lífeyriskerfisins. Þess í stað höfðu þeir endaskipti á hlutunum og samþykktu lög um að skerða lífeyri almannatrygginga langt úr hófi á móti framlögum úr lífeyrissjóðum. Sífellt fleiri telja nú að ekki hafi borgað sig að greiða í lífeyrissjóði alla starfsævina.

Íslendingar eiga jafnan erfitt með að hugsa til langs tíma. Lífeyrissjóðakerfið er vissulega ekki hafið yfir gagnrýni en við verðum að gefa því tíma til að verða fullburða. Gríðarlega mikilvægt er að við náum jafnvægi milli kerfa almannatrygginga og lífeyrissjóða á næstu árum. Um og eftir 2030 verður lífeyrissjóðakerfið orðið svo burðugt að fólk, sem greitt hefur í það frá upphafi starfsferils síns, fær góðan lífeyri.“

Mistök að leggja af verkamannabústaðakerfið

„Eitt af stóru viðfangsefnunum í lífeyrissjóðakerfinu er örorkubyrði sjóðanna sem þyngist stöðugt í heildina en hvílir misjafnlega þungt á þeim. Það er óréttlátt. Velta má fyrir sér hvort örorka eigi að færast í sérsjóði eða verða ef til vill undir hatti almannatrygginga þegar til lengri tíma er litið.“

– Þær raddir heyrast úr verkalýðshreyfingunni og frá stjórnmálamönnum líka að fjármunir lífeyrissjóða eigi að koma við sögu til að halda friði á vinnumarkaði og bæta kjör launafólks. Húsnæðismál eru þar nefnd sérstaklega. Hvað segir þú um það?

„Lífeyrissjóðir styðja vel við húsnæðismarkaðinn og hafa lengi gert með því að fjármagna opinbera lánakerfið og í seinni tíð með því að veita sjóðfélögum afar hagstæð lán til að eignast húsnæði.

Húsnæðisvandann á vissulega að leysa að einhverju leyti við samningaborð atvinnurekenda og launafólks. Ég held til dæmis að menn gætu dregið ákveðna lærdóma af þeim mistökum að leggja af verkamannabústaðakerfið.

Svo nefni ég að lífeyrissjóðir geta komið sem langtímafjárfestar að vel völdum verkefnum innviðafjárfestingar af ýmsu tagi. Hvalfjarðargöng eru ágætt dæmi um mjög vel heppnaða framkvæmd sem lífeyrissjóðir studdu með árangri sem eftir var tekið bæði hér heima og utan landsteinanna.

Lífeyrissjóðakerfið kemur því víðar við sögu í kringum okkur en margur hyggur en samt er eins og sumir líti á það sem sérstaka keppnisgrein að tala það niður. Þegar bankar hrundu, Seðlabankinn var tæknilega gjaldþrota og ríkissjóður sömuleiðis stóð lífeyriskerfið uppi þrátt fyrir allt og greiddi út verðbættan lífeyri. Lífeyrissjóðir töpuðu vissulega miklu en að hluta voru þær eignir pappírsfroða. Sjóðirnir hafa fyrir löngu unnið upp tapið og náð meiri styrk en nokkru sinni fyrr. Kerfið er í lagi og það virkar. Ýmislegt má bæta en ekki tala kerfið niður, hvað þá að leggja það í rústir.“

Heimilið í armslengd frá fyrirtækinu

Guðrún Hafsteinsdóttir lauk stúdentsprófi af viðskipta- og hagfræðibraut Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi vorið 1991 og talar hlýlega um þá menntastofnun. Þar hafi verið vandað og vel menntað fólk í kennarastörfum og námsdvölin hin ágætasta. Hún hóf reyndar nám í Verslunarskóla Íslands í Reykjavík en færði sig svo nær heimaslóðum og kláraði stúdentinn.

Haustið 1992 hafði Guðrún skráð sig til náms í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands en þá var hóað í hana úr fyrirtækinu sem foreldrar hennar, Laufey S. Valdimarsdóttir og Hafsteinn Kristinsson, stofnuðu í Hveragerði 1968. Hafsteinn, framkvæmdastjóri Kjöríss, bauð dóttur sinni að koma til starfa í fyrirtækinu frekar en setjast á skólabekk fyrir sunnan. Eldri systkin, Aldís og Valdimar, voru í háskólanámi og Sigurbjörg, sú yngsta í hópnum, var í menntaskóla.

Guðrún ákvað að slá til og þiggja starfið.

„Ég mætti hingað til starfa í ágúst 1992. Pabbi kom fyrir skrifborði handa mér gegnt sínu eigin á framkvæmdastjórakontórnum og fól mér að taka við fjármálum, innkaupum og markaðsmálum. Fáeinum mánuðum síðar var hann allur, fékk heilablóðfall og lést 18. apríl 1993, einungis 59 ára. Það var að sjálfsögðu feykilegt högg fyrir fjölskylduna og fyrirtækið.

Mamma hafði ekki verið virk í rekstrinum en hún kvað upp úr með það innan einnar viku frá andláti pabba að fjölskyldan myndi eiga fyrirtækið áfram og starfrækja í minningu hans. Ekki um annað að ræða en ég tæki við sem framkvæmdastjóri, nýútskrifaður stúdentinn.

Mamma tók stóra ákvörðun í mikilli sorg. Hún tilkynnti okkur systkinunum það strax að ef við færum að deila um reksturinn myndi hún umsvifalaust selja fyrirtækið. Við þekkjum móður okkar vel og vitum því að við þetta hefði hún staðið. Það hefur aldrei reynt á hótunina því við systkinin rífumst aldrei! Við viljum ekki missa vinnuna.

Fjölskyldan er samhent og við búum öll í Hveragerði. Valdimar bróðir, mamma og ég eigum meira að segja hús í armslengd frá fyrirtækinu.

Þessi lífsreynsla varð háskólagráðan mín í viðskiptafræði og pabbi kenndi okkur systkinum með fráfalli sínu að meta lífið. Veraldlegir hlutir skipta engu máli og lífið verður ekki skipulagt nema svo langt sem það nær. Þetta hefur mótað okkur öll.

Ég varð framkvæmdastjóri við erfiðar aðstæður, yfirmaður starfsmanna sem sumir höfðu verið svo lengi í fyrirtækinu að þeir mundu glöggt eftir deginum þegar ég fæddist! Allir lögðust á eitt að halda starfseminni gangandi, enda heldur lífið áfram.

Þegar best gerist í rekstri fyrirtækis er framkvæmdastjórinn hluti af neti fólks sem gengur í takt til árangurs. Það átti nú aldeilis við um þetta dimma skeið í starfsemi Kjöríss. Starfsmenn okkar báru okkur uppi og fyrir það verðum við ævinlega þakklát.“

Fyrirmyndin Sigríður Dúna

Guðrún flutti til Þýskalands tæplega tveimur árum eftir fráfall Hafsteins í Kjörís. Valdimar bróðir hennar tók við sem framkvæmdastjóri, fyrst vegna fæðingarorlofs Guðrúnar og síðan dvalar erlendis. Hann er enn framkvæmdastjóri Kjöríss.

Þáverandi eiginmaður Guðrúnar þáði tilboð um starf í Hamborg og þangað fór fjölskyldan til dvalar í fimm ár. Guðrún kom síðan á ný til starfa í fjölskyldufyrirtækinu en lagði fyrst lykkju á leið sína og útskrifaðist sem mannfræðingur frá Háskóla Íslands.

Hvað kom til?

„Allt á sér sögu og þessi er sönn! Börn og ungmenni leita sér oft að fyrirmyndum í lífinu. Mér þótti mikið til koma þegar Kvennalistinn fékk fyrstu fulltrúa sína kjörna til setu á Alþingi og ég leit mjög upp til þingkvenna hreyfingarinnar, einkum Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur. Mér fannst hún svo glæsileg og sköruleg. Þegar ég komst að því að hún væri mannfræðingur vildi ég verða mannfræðingur líka. Svo einfalt var nú það.

Pabba fannst hugdettan alveg fráleit og vonlaus. Hann spurði aftur og aftur: „Hvar ætlarðu eiginlega að fá vinnu sem mannfræðingur? Því gat ég ekki svarað. Líklega hef ég smitast af umræðunni á heimilinu og fór í Versló en var þar stutt og kláraði stúdentspróf á Selfossi.

Svo var ég á leið í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands þegar pabbi bauð mér starf í Kjörís með þessum orðum: „Háskólinn verður í vesturbæ Reykjavíkur um aldur og ævi en ég býð þér þetta starf bara einu sinni.“

Hann var gallharður og ég ákvað að taka starfið.

Hugmyndin um að læra mannfræði sat samt alltaf einhvers staðar í kollinum á mér og sótti á mig síðar þegar ég spáði í lífið og tilveruna. Ég var nefnilega minnt á það við fráfall föður míns að það er stutt á milli feigs og ófeigs og þess vegna á maður að fylgja innsæinu og framkvæma það sem hugur manns stendur til. Ég fór í Háskóla Íslands og útskrifaðist sem mannfræðingur árið 2008.“

Mannfræðin notadrjúg í markaðsstarfi

– Samviskuspurning að lokum: Kemur mannfræði þér að gagni í forystusveit lífeyrissjóðakerfisins eða heildarsamtökum atvinnurekenda og þá hvernig?

„Ég hef aldrei séð eftir því að læra mannfræði heldur þvert á móti glaðst yfir því að hafa leyft hjartanu að ráða för. Mannfræði er afskaplega skemmtilegt nám sem víkkar sjóndeildarhringinn og þar með hugann. Mannfræðin leitar leiða til að skilja mismunandi viðbragð fólks við ýmsu áreiti. Þetta nám hefur til dæmis hjálpað mér mikið í mínum markaðsstörfum þar sem maður er alltaf að reyna að skilja og sjá fyrir hegðun fólks. Af hverju gengur einhver vara í Noregi en ekki í Svíþjóð og svo framvegis. Mér finnst mannfræðin hafa ýtt undir gagnrýna hugsun og aukið víðsýni mína.

Aðalheiður Héðinsdóttir, stofnandi Kaffitárs, er góð vinkona og um leið örlagavaldur í lífi mínu. Við höfum verið í Félagi kvenna í atvinnurekstri frá upphafi þess góða félagsskapar og hún hvatti mig til þess að bjóða mig fram til setu í stjórn Samtaka iðnaðarins þegar hún hætti þar vegna þess að reglur heimila ekki stjórnarsetu lengur en í sex ár. Hún sagðist ekki vilja láta sætið sitt í stjórn aftur til strákanna og ég náði kjöri, fékk meira að segja flest atkvæði stjórnarmanna á aðalfundinum. Þetta var fyrsta samkoma Samtaka iðnaðarins sem ég mætti á. Ég sat aftast í salnum og lét lítið fyrir mér fara. Þarna þekkti mig ekki nokkur maður.

Eitt leiddi af öðru en engan veginn var samt skrifað í skýin að ég yrði virk í félagsmálum og eða starfi hagsmunasamtaka. Hins vegar kom sér vel að pabbi var með okkur systkinin í nokkurs konar félagsmálaskóla heima. Hann lét okkur semja og flytja ræður og rökræða. Mig grunar að hann hafi oft verið vísvitandi ósammála síðasta ræðumanni til að kalla fram rök og gagnrök.

Við vorum alin upp í því að bera ábyrgð á eigin lífi og vera sjálfstæð. Mamma og pabbi lögðu mikla áherslu á það í uppeldinu að við bærum sjálf ábyrgð á eigin lífi. Ef hlutirnir væru ekki eins og við vildum hafa þá yrðum við sjálf að leggja okkur fram við breytingar. Við vorum einnig alin upp við það að vera félagslega virk.

Samfélag er ekkert annað en það sem við öll leggjum í það og ekki hægt að gera kröfur til neins nema sjálfs síns.“