Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Metafkoma sjóðsins 2019

Metafkoma sjóðsins á árinu 2019 var staðfest á ársfundi sjóðsins, sem haldinn var þann 2. júní eftir að hafa verið frestað vegna Covid-19 samkomubanns, en upphaflega átti að halda fundinn 24. mars. Hrein ávöxtun sjóðsins var 18,7% sem samsvarar 15,6% hreinni raunávöxtun. Formaður stjórnar þakkar þetta ekki síst því að sjóðurinn hefur í sinni þjónustu öflugt teymi eignastýringar og fleiri krafta sem nauðsynlegir eru til að ná góðum árangri á fjármálamörkuðum.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna skilaði metafkomu á síðasta ári, 2019, hrein raunávöxtun á árinu var 15,6% og eignir jukust um 155 milljarða króna, þar af voru tekjur af fjárfestingum 136 milljarðar. Þetta kom fram í máli Guðmundar Þ. Þórhallssonar framkvæmdastjóra sjóðsins á ársfundi hans vegna 2019 sem haldinn 2. júní, eftir að hafa verið frestað vegna Covid-19 heimsfaraldursins, en upphaflega átti fundurinn að vera í mars.

Þá sagði Guðmundur frá þeirri vaxandi áherslu á samfélags- og sjálfbærnisjónarmið sem hefur einkennt starf sjóðsins undanfarin misseri og að vægi þeirra fari fyrirsjáanlega vaxandi á komandi árum.

Hann gerði einnig grein fyrir helstu stærðum í afkomu sjóðsins fyrstu fjóra mánuði þessa árs. Áætluð ávöxtun tímabilsins 1. janúar til 30. apríl er 3,5%, hrein eign til greiðslu lífeyris hefur hækkað úr 868 milljörðum króna í lok árs 2019 í 904 milljarða í apríllok.

Afkoma sjóðsins það sem af er ári markast óhjákvæmilega af Covid-19 heimsfaraldrinum sem hefur haft mikil áhrif á efnahag gjörvallrar heimsbyggðarinnar. Ísland og íslenskir lífeyrissjóðir eru þar engin undantekning. Lífeyrissjóður verzlunarmanna býr að miklu og góðu veganesti undanfarinna ára og áratuga sem sést meðal annars af langtímaávöxtun sjóðsins, en 30 ára meðaltalsávöxtun á ári er 5,2%.

Stefán Sveinbjörnsson stjórnarformaður sjóðsins flutti skýrslu stjórnar og sagði að þótt gustað hefði um stjórn sjóðsins á árinu 2019 hafi það þó reynst vera, þegar öllu sé til skila haldið, eitt besta ár í sögu sjóðsins. „Þótt það sé mikið fagnaðarefni fyrir þá sem greiða til sjóðsins og sem treysta á að sjóðurinn ávaxti fé þeirra, er það um leið mikil áskorun fyrir stjórn og starfsmenn að viðhalda þessum góða árangri,“ sagði hann. Það væri sérstaklega í ljósi tveggja óhjákvæmilegra grundvallarbreytinga á umhverfi lífeyrissjóðanna, annars vegar hækkandi aldurs mannfólksins þar sem við Íslendingar séum framarlega í flokki og hins vegar að vextir fari lækkandi um nánast allan heim.

„Lækkandi vextir eru vissulega fagnaðarefni fyrir allan almenning sem þarf að bera vaxtakostnað af lánum sínum og annan óbeinan vaxtakostnað, t.d. í verði vöru og þjónustu. Lífeyrissjóður byggir á vaxtatekjum sem tryggja næga ávöxtun fjármuna sjóðfélaganna til að geta greitt þeim viðunandi lífeyri í samræmi við iðgjöldin sem þeir hafa greitt í sjóðinn. Eftir því sem vextir almennt verða lægri verða lífeyrissjóðir að leita nýrra leiða til að ávaxta fjármuni sjóðfélaga, sem getur leitt til meiri áhættu fyrir sjóðinn,“ sagði Stefán.

„Samtímis gerist það að sjóðfélagar verða eldri,“ sagði hann. „Við lifum lengur og það svo um munar. Í forsendum lífeyriskerfis okkar, sem stofnað var að grunni til árið 1969, var byggt á ævilíkum frá árinu 1967. Lífeyrisréttindi voru áætluð samkvæmt iðgjaldagreiðslum og upphafi lífeyristöku við 67 ára aldur. Reikna má með að þeir árgangar sem nú koma inn á vinnumarkaðinn lifi hins vegar lengur og fái þar af leiðandi greiddan lífeyri mun lengur en áður var gert ráð fyrir. Fjármunir sjóðsins þurfa sem sagt að duga til að greiða sjóðfélaganum lífeyri lengur og sá tími er enn að lengjast ár frá ári. Hvernig á að tryggja að lífeyrissjóðurinn ráði við það án þess að lækka lífeyrisgreiðslurnar? Þetta eru meginviðfangsefni stjórnar og stjórnenda sjóðsins næstu misseri og ár.“

Þá sagði Stefán sterka tryggingafræðilega stöðu sjóðsins skapa honum ákveðið svigrúm til að bregðast við hækkandi aldri sjóðfélaga. Ennfremur að ljóst væri að á næstu misserum verði aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld að ná niðurstöðu um hvernig lífeyrissjóðirnir eigi að bregðast við hækkandi aldri þjóðarinnar. „Þar þarf að gæta bæði réttlætis og sanngirni, að reglum verði breytt á þann veg að hver kynslóð sjóðfélaga fái lífeyrisréttindi í samræmi við aldur og iðgjöld, að fyllsta jafnræðis verði gætt milli sjóðfélaga þannig að einhverjir fái ekki meira en þeim ber og aðrir minna. Um þetta þarf að nást víðtæk sátt og við þolum ekki langa bið eftir því.“

Formaður vék að góðri ávöxtun sjóðsins, ekki aðeins síðastliðið ár heldur undanfarna áratugi: „En meðaltalsraunávöxtun sjóðsins síðustu 20 ár er 4,1% og 6,0% síðustu tíu ár.“

Með góðri ávöxtun verði léttara að tryggja jafnverðmætar mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur í fleiri og fleiri mánuði. „Lífeyrissjóður verzlunarmanna býr svo vel að hafa í þjónustu sinni öflugt teymi eignastýringar, áhættustýringar og fleiri krafta sem nauðsynlegir eru til að ná árangri á fjármálamörkuðum. Reynslan sýnir að eigin eignastýring er hagstæðari en útvistun eignastýringar á almennum markaði eins og hér á landi, en útvistun getur verið nauðsynleg á sérhæfðum mörkuðum. Fjármálamarkaðir eru kvikir, ekki aðeins eru gengissveiflur tíðar heldur tekur innihald þeirra, eða „vöruframboð“, einnig breytingum og þróast. Með virkri þátttöku og góðri vöktun eigum við möguleika á að hámarka afkomu sjóðsins við þessar aðstæður.

Í því ástandi sem komið hefur í kjölfar kórónuveirunnar hefur reynt á rekstur lífeyrissjóðsins. En heilt yfir hefur reksturinn gengið vel þrátt fyrir ýmsar takmarkanir sem settar hafa verið af stjórnvöldum. Þrátt fyrir lækkanir á fjármálamörkuðum er ávöxtun sjóðsins jákvæð það sem af er ári en fjármálamarkaðir eru kvikir og getur sú staða breyst hratt,“ sagði Stefán Sveinbjörnsson og þakkaði að lokum starfsfólki sjóðsins „... sem býr yfir mikilli þekkingu og reynslu og leggur alúð sína og metnað í að vinna í þágu sjóðfélaga.“