Mögulegt að taka hálfan lífeyri og fresta töku lífeyris til allt að 80 ára aldurs
Frá og með fyrsta september 2018 getur sjóðfélagi valið um að hefja töku hálfs ellilífeyris hjá sjóðnum. Ef hálfur lífeyrir er tekinn geymir sjóðfélagi hinn helminginn og getur hafið töku hans þegar hann kýs. Mánaðarlegar greiðslur vegna geymdra réttinda hækka í samræmi við samþykktir sjóðsins eins og þær eru á hverjum tíma.
04. sep. 2018
Einnig er nú boðið upp á að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs í stað 70 ára áður, gegn hækkun á mánaðarlegum greiðslum, sbr. nánari ákvæði í samþykktum sjóðsins. Almennur lífeyrisaldur hjá sjóðnum er eftir sem áður 67 ár og hægt er að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri eins og verið hefur.
Heimild til töku hálfs lífeyris byggir á lögum frá Alþingi, sem tóku gildi um síðustu áramót. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur uppfyllt öll skilyrði laganna um töku hálfs lífeyris, m.a. um samþykktabreytingar og kynningu á þeim.
Taka hálfs lífeyris getur m.a. hentað þeim sem eiga rétt á töku hálfs ellilífeyris hjá Tryggingastofnun. Einnig getur hún mögulega hentað þeim sem hafa umtalsverðar atvinnutekjur og kjósa að fresta töku hluta af ellilífeyri sínum.
Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögunum er þeim sem þegar hefur hafið töku ellilífeyris hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, við gildistöku samþykktabreytinganna, heimilt að lækka hlutfallið úr fullum lífeyri í hálfan til 31. desember 2019.
Nánar um hálfan lífeyri hjá Tryggingastofnun
Með breytingum á samþykktum hefur Lífeyrissjóður verzlunarmanna uppfyllt skilyrði laga almannatrygginga sem veita möguleika á töku hálfs lífeyris frá Tryggingastofnun gegn töku hálfs lífeyris hjá lífeyrissjóðum.
Heimild til hálfs lífeyris hjá Tryggingastofnun byggir á lögum sem tóku gildi um s.l. áramót. Breytingin felur í sér heimild til töku hálfs lífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 65 ára aldri, enda nýti viðkomandi sér rétt til töku hálfs lífeyris hjá þeim lífeyrissjóðum sem hann á réttindi í. Í lögum um almannatryggingar kemur fram að heimild til að taka hálfan ellilífeyri hjá Tryggingastofnun sé háð því að umsókn um lífeyri hafi verið samþykkt hjá þeim lífeyrissjóðum sem umsækjandi á rétt hjá. Þá kemur einnig fram að samanlagður áunninn réttur til ellilífeyris hjá lífeyrissjóðunum og frá almannatryggingum (Tryggingastofnun) verði að vera að lágmarki jafn hár fullum ellilífeyri almannatrygginga (sú fjárhæð nemur nú um 239.484). Hér er um nokkra einföldun á efni lagatextans að ræða og því mikilvægt fyrir sjóðfélaga að afla nánari upplýsinga hjá Tryggingastofnun. Sjá m.a. reiknivél TR (velja tegund: 50% ellilífeyri á móti 50% lífeyri frá lífeyrissjóðum).
Umsókn um hálfan lífeyri
Ítarefni