Óviðunandi tekjuskerðing í lífeyriskerfinu
Grein eftir Þórey S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, sem birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2019.
21. feb. 2019
Grein eftir Þórey S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, sem birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2019.
21. feb. 2019
Tekjuskerðing almannatrygginga gagnvart eldri borgurum og öryrkjum er alls ekki sjálfsögð og því síður að hún teljist vera einhvers konar samfélagslögmál sem verði ekki brotið frekar en sjálft náttúrulögmálið. Tekjuskerðingunni var komið á með pólitískri ákvörðun og henni verður ekki breytt eða hún afnumin nema með pólitískri ákvörðun.
Íslendingar sýndu snemma forsjálni og byggðu upp lífeyriskerfi sjóðsöfnunar þar sem miðað er við að hver kynslóð leggi til hliðar á starfsævinni til efri áranna. Með því var fetuð sú braut sem Efnahags- og framfarastofnunin – OECD og Alþjóðabankinn mæla eindregið með af því samfélögin og efnahagskerfin ráða ekki við það til lengdar að fjármagna eftirlaun með sköttum að mestu eða öllu leyti í svokölluðum gegnumstreymiskerfum.
Stefán Halldórsson, verkefnastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, stýrði vinnu starfshóps þar sem íslenska lífeyriskerfið var borið saman við lífeyriskerfi sem talin hafa verið eftirsóknarverð, í Englandi, Hollandi, Svíþjóð og Danmörku. Á Íslandi er yfir 60% lífeyris greidd úr lífeyrissjóðakerfinu en innan við 40% koma frá Tryggingastofnun. Svo hátt hlutfall greiðslna úr lífeyrissjóðum þekkist hvergi annars staðar.
Það sem stingur í augu við þennan samanburð er sú staðreynd að íslenska kerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris frá ríkinu. Hvergi annars staðar fellur lífeyrir úr opinbera kerfinu alveg niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk.
Tekjutengingin hér er harkaleg og vandséð hvað réttlætir það að Íslendingar skrái sig á söguspjöld með slíku fyrirkomulagi. Skerðingin varðar tugi þúsunda manna. Til að mynda hefur komið fram hjá Hauki Arnþórssyni stjórnsýslufræðingi að með núverandi kerfi, sem komið var á 2016, hafi tala aldraðra sem engar greiðslur fá frá Tryggingastofnun komist upp í 13.000!
Þá sýnir Haukur fram á með sannfærandi rökum að ríkið tvískatti í raun lífeyristekjur í núverandi kerfi, annars vegar hjá ríkisskattstjóra og hins vegar hjá Tryggingastofnun. Það er að segja að aldraðir greiði skatt af tekjum sínum líkt og aðrir en síðan annan skatt í formi skerðingar. Slíkt þekkist hvergi annars staðar.
Hér er einfaldlega alltof langt gengið, þessu verður að breyta. Lýst er eftir pólitískum ákvörðunum þar að lútandi.
Í umræðunni í samfélaginu ber því miður nokkuð á því að tekjuskerðing í lífeyriskerfinu sé eignuð lífeyrissjóðunum eða jafnvel að hún sé þeim að skapi sem stjórna og starfa í lífeyrissjóðakerfinu. Enginn fótur er fyrir slíku, þvert á móti. Á vettvangi Landssamtaka lífeyrissjóða er sú skoðun ríkjandi að tekjuskerðingin sé langt úr hófi og úr henni verði að draga verulega.
Stóra myndin sem við blasir er svo sú að þeir sem fara með löggjafar- og framkvæmdavald í landinu gera lífeyrissjóðina að meginstoð lífeyriskerfisins mun fyrr en til stóð en spara á móti ríkisútgjöld vegna almannatrygginga með tekjuskerðingum.
Í vor verða 50 ár liðin frá því forystumenn heildarsamtaka atvinnurekenda og launafólks undirrituðu kjarasamninga sem mörkuðu tímamót vegna ákvæðis um aðild launafólks á almennum vinnumarkaði að lífeyrissjóðum. Sjóðunum var ætlað það hlutverk að bæta kjör eldri borgara.
Væri ekki rétt að aðilar vinnumarkaðarins beittu samstöðuafli sínu gagnvart stjórnvöldum og tryggðu að samningsbundið iðgjald til lífeyrissjóða nýtist sjóðfélögum fremur en ríkinu með óbeinum hætti, líkt og virðist gerast nú?
Hví eiga eldri borgarar að þola þyngri skattbyrði en almennt gerist í þjóðfélaginu, meira að segja langt umfram það sem telst vera hátekjuskattur?