Stjórn sjóðsins beitir sér í starfskjaramálum N1
Á fundi stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) þann 20. september 2018 var tekin til umræðu starfskjarastefna N1 sem félagið hugðist leggja fyrir hluthafafund.
25. sep. 2018
Á fundi stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) þann 20. september 2018 var tekin til umræðu starfskjarastefna N1 sem félagið hugðist leggja fyrir hluthafafund.
25. sep. 2018
Stjórn LV taldi sig ekki geta samþykkt stefnuna að óbreyttu og var þeirri afstöðu komið á framfæri við stjórn N1. Lífeyrissjóðurinn hefur tekið þátt í samtali sem stjórn N1 hf. hefur átt við stærstu hluthafa félagsins. Þær breytingar sem stjórn N1 hf. hefur kynnt í kjölfar þess eru mikilvæg skref í rétta átt.
Þá telur stjórn LV mikilvægt að stjórn N1 hf, sem og önnur fyrirtæki, hugi vel að fjárhæð fastra launa forstjóra félaga með tilliti til vægis mögulegs kaupauka þannig að grunnlaun og möguleg heildarlaun forstjóra og eftir atvikum annarra lykilstjórnenda séu í sem bestu samræmi við hagsmuni félagsins og hluthafa.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er hluthafi í flestum þeim fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Stjórnin bendir á að hverju skráðu félagi á Íslandi er skylt að móta sér starfskjarastefnu. Um leið og viðurkennt er að í fyrirtækjum sem starfa á samkeppnismarkaði er eðlilegt að umbuna fólki fyrir vel unnin störf skal áhersla lögð á að gæta verður hófs í launagreiðslum og að launakjör taki mið af íslenskum veruleika.
Lífeyrissjóðurinn hefur verið hluthafi í N1 hf. um nokkurra ára skeið. Á þeim tíma hafa sjóðfélagar lífeyrissjóðsins notið góðrar ávöxtunar af hlutafjáreign lífeyrissjóðsins. Það er von LV að N1 hf. muni áfram ganga vel á þeirri vegferð sem það er nú á. Í því sambandi er mikilvægt að stjórn félagsins nái að halda góðu jafnvægi milli hagsmuna mikilvægra haghafa félagsins eins og starfsmanna og viðskiptavina félagsins samhliða því sem áhersla er lögð á skilvirkan rekstur til lengri tíma litið. Með því er langtímahagsmunum LV og annarra hluthafa best gætt. Verkefni stjórnar er ærið þar sem gæta þarf að því að styðja við samhent teymi æðstu stjórnenda og ekki síður þann auð sem býr í starfsmönnum félagsins í heild.
Stjórn N1 hf. hefur svarað samtali félagsins við Lífeyrissjóð verzlunarmanna og aðra hluthafa með tillögum til breytinga á fyrirliggjandi drögum að starfskjarastefnu félagsins. Það er mikilvægt skref.