Tímamót í starfi LV Góðum árangri skilað til sjóðfélaga
30. mar. 2022
30. mar. 2022
Allt eru þetta miklar og víðtækar breytingar sem útskýrðar eru ítarlega í árs- og sjálfbærniskýrslu sjóðsins sem finna má á vefnum arsskyrsla.live.is.
Ábyrgð í allri starfsemi sjóðsins hefur í síauknum mæli verið leiðarljós Lífeyrissjóðs verzlunarmanna undanfarin ár. Á þann hátt hefur verið mögulegt að sýna umhverfi okkar sem og sjóðfélögum öllum þá umhyggju sem nútímasamfélag krefst. Góður árangur sjóðsins undanfarna áratugi skilar sér til sjóðfélaga.
Á íslenskum verðbréfamarkaði er Lífeyrissjóður verzlunarmanna einn af brautryðjendum til þess nýja veruleika sem blasir nú við fjárfestum af sífellt meiri þunga. Almennt er orðin ráðandi krafa við fjárfestingar í verðbréfum að fjárfestingin uppfylli kröfur um sjálfbærni og samfélagsábyrgð meðal annars vegna þeirra áskorana sem blasa við vegna loftslagsbreytinga. Sem liður í því setja fjárfestar eins og LV sér stefnu um útilokun fjárfestinga sem ekki geta fallið að slíkum kröfum og hefur LV samþykkt útilokun fyrirtækja sem meðal annars framleiða tóbak, umdeild vopn og mjög mengandi jarðefnaeldsneyti.
Jafnframt er í engu slegið af kröfum um áreiðanleika og arðsemi fjárfestinga, þótt sett séu skilyrði um að þær uppfylli sjálfbærnikröfur enda eru fyrirtæki sem ekki huga að sjálfbærni mögulega í verri stöðu til að takast á við áskoranir samtímans
Verið er að auka áfallatryggingavernd sjóðsins og auka sveigjanleika til töku lífeyris.
Sveigjanleiki varðandi upphaf lífeyristöku er aukinn. Mögulegur upphafsaldur lífeyris er færður til 60 ára aldurs úr 65 ára. Endurreikningur lífeyris verður tíðari hjá þeim hafa hafið töku lífeyris en halda áfram að ávinna sér réttindi vegna launatekna. Örorkutrygging sjóðfélaga er einnig bætt þar sem framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eftir hlé á greiðslum til sjóðsins eftir sex mánuði sem áður var 36 mánuðir. Þá mun lágmarksréttur til makalífeyris einnig taka breytingum þar sem hálfur makalífeyrir í 24 mánuði bætist við þá 36 mánuði sem fullur makalífeyrir er greiddur.
Samþykktabreytingarnar fela einnig í sér breytingu á réttindaávinnslu sameignardeildar sem tekur mið af breyttum forsendum við mat á lífeyrisskuldbindingum sjóðsins. Forsendubreytingin byggir á nýjum dánar- og eftirlifendatöflum sem staðfestar voru af ráðherra í desember 2021, er í samræmi við ráðgjöf tryggingastærðfræðings sjóðsins og til þess fallin að styrkja mat á skuldbindingum sameignardeildar og draga úr líkum á að lækka þurfi réttindi í framtíðinni vegna hækkandi lífaldurs sjóðfélaga.
Lífeyrisgreiðslur munu hækka líkt og þær gerðu í nóvember 2021 þegar þær hækkuðu um 10% Ástæðan er góð ávöxtun LV undanfarin ár, sem styrkt hefur tryggingafræðilega stöðu sjóðsins.
Lífeyrisgreiðslur hækka um um það bil 8%, með fyrirvara um afkomu sjóðsins á árinu. Áunnin lífeyrisréttindi í sameignardeild sjóðsins hækka hins vegar um 12% að frátöldum barnalífeyri. Hækkunin leiðir ekki af sér samsvarandi hækkun lífeyris þar sem áhrif nýrra dánar- og eftirlifanditaflna hefur áhrif á áunnin lífeyrisréttindi til lækkunar, minnst hjá sjóðfélögum sem eru 65 ára og eldri en sá hópur er kominn með rétt til töku ellilífeyris. Ástæðan fyrir þessum mun liggur í því mati að lífaldur yngri sjóðfélaga sé að hækka meir en þeirra sem eldri eru.
Aldur | Hækkun áunnina réttinda 2021 | Jöfnun áunnina réttinda vegna réttindabreytinga |
Hækkun áunnina réttinda 2022 |
Alls |
---|---|---|---|---|
Lífeyrisþegar og 65 ára og eldri | 10,0% | -4,3% | 12,0% | 17,9% |
60 | 10,0% | -6,6% | 12,0% | 15,1% |
50 | 10,0% | -9,2% | 12,0% | 11,9% |
40 | 10,0% | -11,0% | 12,0% | 9,6% |
30 | 10,0% | -12,3% | 12,0% | 8,0% |
20 | 10,0% | -13,4% | 12,0% | 6,7% |