Vextir sjóðfélagalána lækka
Stjórn sjóðsins hefur ákveðið lækkun vaxta á óverðtryggðum sjóðfélagalánum frá og með 24. apríl 2020. Jafnframt verður boðið upp á nýjan verðtryggðan lánaflokk þar sem vextir verða fastir til fimm ára í senn.
22. apr. 2020
Vextir óverðtryggðra lána eru fastir til þriggja ára í senn. Þessir vextir lækka úr 5,14% í 4,95%. Vaxtalækkunin tekur gildi við endurskoðun vaxta samkvæmt ákvæðum skuldabréfs.
Jafnframt mun verða boðið upp á nýjan vaxtaflokk fyrir verðtryggð lán þar sem vextir verða ákvarðaðir til fimm ára í senn, nú 2,70%. Nánari upplýsingar og umsóknarform verða aðgengileg á vef sjóðsins 11. maí næstkomandi.
Breytilegir vextir eldri verðtryggðra lána lækka úr 2,26% í 1,95%.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur veitt sjóðfélagalán frá stofnun sjóðsins árið 1956. Sjóðurinn mun áfram veita virkum sjóðfélögum fasteignalán á samkeppnishæfum kjörum.
Nánari upplýsingar er að finna á vef sjóðsins og í lánareglum. Sjóðfélögum er velkomið að hafa samband við þjónustuver sjóðsins.